Hoppa yfir valmynd
15. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikill vöxtur á vinnumarkaði

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fyrir fyrsta ársfjórðung í ár kemur fram að atvinnuþátttaka er sú mesta sem mælst hefur frá því stöðugar vinnumarkaðskannanir fyrir alla ársfjórðunga voru teknar upp árið 2003.

Atvinnuþátttakan, sem er hlutfall starfandi og atvinnulausra af heildaríbúafjölda á vinnualdri (16-74 ára) reyndist vera 81,1%. Þetta hlutfall hafði hækkað um 1,3 prósentustig frá sama ársfjórðungi í fyrra. Það hækkaði meira hjá körlum en konum en skýringin á því er að mikill hluti nýrra erlendra starfsmanna eru karlar. Það vekur athygli að hækkunin er um 4 prósentustig hjá elsta hluta vinnumarkaðarins (55-74 ára); hún er 2,2 prósentustig hjá yngsta hlutanum (16-24 ára) en hjá aldurshópi 25-54 ára hefur atvinnuþátttakan dregist saman um 0,2 prósentustig. Þar er hún hæst fyrir.

Greinilegt er að ríkjandi atvinnuástand hefur dregið úr áhuga eldra fólks á að draga sig út af vinnumarkaði. Jafnframt virðist freistingin til þess að vinna frekar en að halda áfram í skóla hjá yngri hlutanum vera minni en var í síðustu uppsveiflu. Atvinnuþátttakan hefur aukist meira á höfuðborgarsvæðinu en utan þess og hún er meiri þar en á landsbyggðinni.

Starfandi mönnum hefur fjölgað um 7.700 frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Þetta er aukning um 4,9%. Af aukningunni koma 800 úr röðum þeirra sem áður töldust atvinnulausir. Meiri atvinnuþátttaka í ár en á sama tímabili í fyrra skýrir 2.100 til viðbótar. Náttúruleg fjölgun fólks á vinnualdri, að teknu tilliti til atvinnuþátttöku, skýrir um 3.000 manna aukningu á fjölda starfandi. Þá er eftir um það bil 1.800 manns, um fjórðungur af fjölguninni, sem hægt er að skýra með aðflutningi til landsins. Fjölgun fólks á vinnualdri af þeim orsökum yfir árið 2005 telst hafa verið um 3.500 sem gæti bent til a.m.k. 2.800 manna fjölgunar á fjölda starfandi sem er töluvert umfram það sem álykta má af vinnumarkaðskönnunum. Þar gæti skýringin verið sú að kannanirnar nái ekki eins vel til erlends vinnuafls og annarra hluta vinnumarkaðarins, þrátt fyrir það að Hagstofan reyni sitt besta til að ná til þeirra eins og annarra.

Á sama tíma og íbúum fjölgar og atvinnuþátttaka vex hefur vinnutími aukist sömuleiðis. Hann einn gefur til kynna 1,2% aukningu milli ára. Þegar allt er talið óx vinnumagn sem unnið var á fyrsta ársfjórðungi í ár um 6,2% frá sama tímabili í fyrra. Vinnumagn óx um tæp 4% í fyrra frá árinu þar á undan og ef svo heldur sem horfir gæti vöxturinn í ár orðið meiri en það.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta