Hoppa yfir valmynd
16. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áhrif gengis krónunnar á þjóðhagsspá

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í síðustu þjóðhagsspám fjármálaráðuneytisins hefur verið vakin athygli á óvissu varðandi framvindu á gengi íslensku krónunnar. Spár um þróun gengis krónunnar hafa tekið nokkrum breytingum og skiptir miklu máli að gerðir séu skýrir fyrirvarar um forsendur varðandi gengi krónunnar hverju sinni.

Á meðfylgjandi myndum eru sýnd dæmi um 5% frávik í báðar áttir frá forsendu um gengisþróun í vorspá fjármálaráðuneytisins sem kom út í apríl. Fráviksdæmin eru framreiknuð með þjóðhagslíkani fjármálaráðuneytisins en það byggist á fræðilegum grunni og tölfræðilegu mati sögulegra talnagagna.

Fráviksdæmi: áhrif þess ef gengi verður 5% hærra eða lægra en í grunndæmiÁhrif gengisfrávika á hagvöxt eru nokkuð sterk í upphafi. Veikari króna gefur til kynna að hagvöxtur verði um 0,3% meiri en grunnspá árin 2006 og 2007. Árið 2008 fellur frávikið í 0,1% og hverfur árið 2010. Áhrif af fráviki vegna sterkari krónu á hagvöxt eru nánast samhverf á móti áhrifum lágdæmisins. Hið sama á við þegar um er að ræða áhrif frávika á viðskiptajöfnuð, verðbólgu og atvinnuleysi.

Breyting í viðskiptajöfnuði sem hlutfalli af landsframleiðslu tekur hægar við sér en í hagvexti þegar áhrif af fráviksdæmum eru athuguð. Samkvæmt framreikningi kemur u.þ.b. helmingur af áhrifunum fram á árinu 2007 og að fullu árið 2010 en þá verður hallinn um 1% minni í lágdæmi miðað við grunndæmið.

Áhrif á verðbólgu koma strax fram og hverfa nánast á öðru ári framreikninga. Áhrif gengisbreytinga á atvinnuleysið eru vaxandi þegar frá dregur, a.m.k. yfir þann tíma sem athugunin náði til.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum