Hoppa yfir valmynd
17. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framboðslistar í sveitarstjórnarkosningum

Félagsmálaráðuneytið hefur hafið úrvinnslu upplýsinga um sveitarstjórnarkosningarnar. Í 60 sveitarfélögum eru boðnir fram listar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí næstkomandi,samanbori við 66 sveitarfélög árið 2002. Þar af var sjálfkjörið í sjö sveitarfélögum. Það er því ljóst að listakosning fer fram í heldur færri sveitarfélögum nú en við sveitarstjórnarkosningarnar 2002, enda hefur sveitarfélögum fækkað um 25 á tímabilinu, eða úr 105 í 79.

Flestir eru listarnir í Akureyrarkaupstað, eða sex talsins. Algengast er að tveir listar bjóði fram. Heildarfjöldi framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar að þessu sinni er 172, eða 10 listum færra en var 2002.

Sé horft til þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi þá bjóða þeir allir fram sjálfstætt eða í samstarfi við aðra, er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn býður fram lista í flestum sveitarfélögum, samanber eftirfarandi töflu:

Stjórnmálaflokkur Fjöldi sveitarfélaga
Sjálfstæðisflokkurinn D 37
Framsóknarflokkurinn B 23
Samfylkingin S 15
Vinstrihreyfingin – grænt framboð V 13
Frjálslyndi flokkurinn F 7

Í mjög mörgum sveitarfélögum eru staðbundnir framboðslistar boðnir fram undir ýmsum nöfnum og bókstöfum. Nokkuð algengt er að staðbundnir listar hafi skírskotun til nafn þess sveitarfélags þar sem boðið er fram. Auk þess hafa þónokkur framboð tengingu við lýðræði, framsýni eða nýja tíma í nafni sínu. Algengasti listabókstafurinn utan þeirra bókstafa sem stjórnmálaflokkarnir nota er bókstafurinn L, en tólf listar nota þann bókstaf.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum