Hoppa yfir valmynd
17. maí 2006 Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegsráðherra Færeyja í opinberri heimsókn

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Opinberri heimsókn sjávarútvegsráðherra Færeyinga til Íslands lokið

 

Opinberri heimsókn Björns Kalsö sjávarútvegsráðherra Færeyja og föruneytis hans til Íslands lauk í dag. Á fundi Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra og Kalsö var m.a. rætt um ástand loðnustofnsins og veiðar úr honum. Ákvörðun um veiðiheimildir Færeyinga verður tekin þegar nánari vitneskja liggur fyrir um ástand stofnsins. Færeyingar ítrekuðu vilja sinn til að mega nýta loðnuna sem þeir veiða í íslenskri lögsögu í annað en bræðslu.

 

Farið var yfir stöðuna í sjóræningjaveiðum á Reykjaneshrygg. Einar K. Guðfinnsson lýsti vonbrigðum sínum með að sjóræningjaskip hafi fengið þjónustu í höfnum aðildarríkja Norðuaustur-Atlantshafsfiksveiðinefndarinnar, NEAFC og nauðsynlegt sé að aðildarríkin leggi baráttunni gegn ólöglegum og óábyrgum veiðum lið af sama kappi og Íslendingar hafi gert. Kalsö kvað Færeyinga reiðubúna að sinna skildum sínum í samræmi við samþykktir NEAFC og kannað verði hvort færeysk eftirlitsskip geti lagt Landhelgisgæslu Íslands lið við eftirlit á Reykjaneshrygg.

 

Þá var rætt um skýrslu um samkeppnishæfni sjávarútvegs í Íslandi og Noregi, sem kynnt var í desember 2005. Færeyingar hafa hug á að taka þátt í næsta samanburði.

 

Í kjölfar fundarins kynnti Kalsö sér starfsemi nokkurra fyrirtækja bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Hann heimsótti Marel og HB-Granda. Brá sér í beitningaskúr í Bolungarvík, upp á Bolafjall og í minjasafnið í Ósvör, skoðaði 3x-Stál á Ísafirði, þorskeldi í Álftafirði, snjóflóðavarnir á Flateyri og leikskóla sem Færeyingar gáfu Súðvíkingum og Flateyringum í kjölfar snjóflóðanna árið 1995. Með Birni Kalsö í för voru Hennibeth Kalsö eiginkona hans og Rógvi Reinert ráðuneytisstjóri.

 Sjavarutv_radhr_Fareyja_i_heimsokn_a_leikskola_a_Isafirdi_16_mai_06

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Með börnunum eru, talið frá vinstri: Barbara Ferster leikskólastjóri, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og eiginkona hans Sigrún J. Þórisdóttir, Rógvi Reinert ráðuneytisstjóri færeyska sjávarútvegsráðuneytisins, Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Björn Kalsö sjávarútvegsráðherra Færeyja og eiginkona hans Hennibeth Kalsö. Soffía Ingimarsdóttir krýpur fyrir miðju með börnunum.

Sjrhr_Fareyja_-_torskeldi_i_Alftafirdi_16_mai_06

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

þorskeldið í Álftafirði, þar sem ráðherrarnir fóðra þorsk í kvíum Hraðfrystihússins Gunnvarar.  

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 17. maí 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta