Hoppa yfir valmynd
17. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Umferðarstofa valin ríkisstofnun til fyrirmyndar 2006

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 11/2006

Í gær afhenti fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, Umferðarstofu viðurkenningu sem ríkisstofnun til fyrirmyndar 2006. Karl Ragnars forstjóri veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Verðlaunagripinn, Vegvísinn, hannaði Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður. Einnig afhenti ráðherra ríkisskattstjóra viðurkenningarskjal fyrir góðan árangur og Borgarholtsskóla hvatningarviðurkenningu.

Í janúar skipaði fjármálaráðherra nefnd til þess að velja ríkisstofnun sem skarar fram úr og er til fyrirmyndar í starfi sínu. Í nefndinni voru Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsis hf., Einar Ragnar Sigurðsson, formaður Stjórnvísi, og Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Másson stjórnmálafræðingur og Leifur Eysteinsson viðskiptafræðingur hjá fjármálaráðuneytinu.

Óskað var eftir tilnefningum frá ráðuneytum auk þess sem ríkisstofnanir gátu sjálfar óskað eftir að verða tilnefndar. Nefndinni bárust greinargerðir frá tólf stofnunum að þessu sinni og voru þær m.a. metnar eftir því hversu skýr stefnumótun, framtíðarsýn og markmiðssetning þeirra var. Einnig var horft til þess hvaða stjórnunaraðferðir væru notaðar, hvernig stjórnendur og starfsmenn fylgdust með því að vinnan skilaði árangri og stefnumörkun miðaði í rétta átt. Skoðað var hvaða aðferðum stofnanir beita til að þróast og bæta árangur sinn í síbreytilegu umhverfi og nýjungar í þjónustu við notendur og betri liðsheild innan stofnananna. Nefndin lagði áherslu á að starfsemi ríkisstofnunar til fyrirmyndar væri árangursrík og skilvirk og að stofnunin hefði metnað til að bæta sig.

Nefndin tók ekki afstöðu til þátta sem löggjafinn ákveður, svo sem lögbundins hlutverks stofnana, rekstrarforms þeirra eða fjárveitinga, en þessi atriði geta haft áhrif á stjórnun, verkefni og árangur.

Markvisst hefur verið unnið að því undanfarin ár að bæta þjónustu, skilvirkni, hagkvæmni og árangur í ríkisrekstri, Þetta hefur meðal annars verið gert undir merki árangursstjórnunar sem felur í sér áherslu á að forgangsraða verkefnum, marka skýra stefnu, mæla árangur og þróa starfsemi í síbreytilegu umhverfi. Tilgangurinn með að velja ríkisstofnun til fyrirmyndar er að hvetja stofnanir til dáða í þessum efnum.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir m.a. um vinningshafann:

Umferðarstofa er stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun sem sett var á laggirnar í október 2002 til að taka við verkefnum Umferðarráðs og Skráningarstofunnar, ásamt verkefnum sem dómsmálaráðuneytið hafði sinnt. Í framhaldinu var ráðist í viðamikla stefnumótun, komið á nýju stjórnskipulagi og breytingar gerðar á ýmsum kerfum. Áskorunin fólst í að breyta þeirri afgreiðsluhugsun sem ríkt hafði og taka upp þjónustuhugsun ásamt því setja meiri kraft í umferðaröryggismálin. Hluti af framtíðarsýninni var að árið 2006 yrði Umferðarstofa talin fyrirmyndarstofnun í ríkisrekstri sem nú hefur ræst. Mikill hugur var í starfólki sem tók allt þátt í útfærslu stefnunnar og umræðu um markmiðssetningu í anda stefnumiðaðs árangursmats sem reynst hefur öflugt tæki til að koma á breytingum.

Margar breytingar hafa verið gerðar og þær einkennst af metnaði og keppnisanda sem kemur fram í mikill starfsánægju samkvæmt mælingum. Stofnunin hefur einnig verið óspör á að miðla öðrum stofnunum af reynslu sinni á sviði árangursstjórnunar. Mikil áhersla er lögð á þjónustu, sem er eitt af gildum stofnunarinnar, og nýsköpun hefur verið sett í forgrunn. Stór skref hafa verið stigin í þá átt að bæta rafræn samskipti við viðskiptavini stofnunarinnar sem sést m.a. á því að hægt er að tilkynna um eigendaskipti ökutækja rafrænt, svokölluð 100% vefþjónusta.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur Umferðarstofa náð árangri á mörgum sviðum og skulu nú nefnd nokkur dæmi:

  • Þrátt fyrir töluverða fjölgun viðskiptavina hefur meðalbiðtími í afgreiðslu styst úr tæpum fjórum mínútum í tæpar tvær og fjöldi þeirra sem bíða lengur en í sjö mínútur hefur farið úr rúmlega 700 á mánuði niður í 60.
  • Umferðarstofa leggur mikla áherslu á að veita á vef sínum góðar upplýsingar um mál sem varða ökutæki og umferðarfræðslu en úttekt óháðs aðila á viðmóti vefja opinberra stofnana leiddi í ljós að vefur Umferðarstofu er meðal þeirra bestu.
  • Auglýsingar Umferðarstofu hafa vakið mikla athygli og þótt sumar hafi verið umdeildar sýna mælingar að skilaboðin hafa í 80-90% tilvika komist vel til skila. Auglýsingin „Hægðu á þér“ hefur t.d. hlotið viðurkenningar bæði innan lands og utan.
  • Mælanlegur árangur hefur náðst í umferðaröryggismálum, sem stofnunin vinnur að ásamt fjölmörgum öðrum.
  • Árið 2002 létust í umferðinni eða slösuðust alvarlega 200 manns en árið 2004 var fjöldinn undir 150, þrátt fyrir umtalsverða fjölgun ökutækja.

Þetta er í sjötta sinn sem ríkisstofnun til fyrimyndar er valin en ÁTVR varð fyrir valinu árið 2004, Orkustofnun 2002, Landgræðsla ríkisins 2000, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi 1998 og Kvennaskólinn í Reykjavík 1996.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta