Afhending Grænfánans og friðlýsing Einkunna
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra afhenti Grunnskólanum í Borgarnesi Grænfánann við hátíðlega athöfn á lóð skólans í morgun. Við sama tækifæri var undirrituð auglýsing um friðlýsingu Einkunna sem fólkvangs.
Grunnskólinn í Borgarnesi hefur tekið þátt í Grænfánaverkefninu frá árinu 2001 og afhending Grænfánans nú er afrakstur vinnu skólans og nemenda hans að umhverfismálum frá þeim tíma. Þessi vika hefur í skólanum verið tileinkuð umhverfismálum og Grænfánaverkefninu. Þemu skólans innan verkefnisins eru átthagar, rusl og orka, og viðfangsefni nemenda í vikunni hafa tengst þessum þemum.
„Best varðveitta leyndarmál Borgarfjarðar“
Að lokinni athöfninni í Grunnskólanum í Borgarnesi var ekið í Einkunnir, en þær eru svæði skammt fyrir utan Borgarnes. Þrátt fyrir nálægðina við bæinn og fegurð svæðisins hefur það ekki verið mikið notað til útivistar og varð einum viðstaddra á orði að Einkunnir væru „best varðveitta leyndarmál Borgarfjarðar“. Með friðlýsingu Einkunna sem fólkvangs eru vonir bundnar við að fleiri muni nýta sér náttúrufegurð svæðisins.
Í markmiðsgrein friðlýsingarinnar segir: „Markmið með friðlýsingu svæðisins Einkunna sem fólkvangs er að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Með friðlýsingunni er þannig stuðlað að varðveislu jarðfræðilegrar fjölbreytni, en Einkunnir eru klettaborgir sem rísa upp af mýrlendinu umhverfis. Þar eru einnig stöðuvatn, tjörn og lækir. Nafnið er fornt og kemur fyrir í Egils sögu og er því einnig um menningargildi að ræða. Einkunnir og svæðið umhverfis þær er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar; landslagið er fagurt, skógur vöxtulegur og dýralíf allfjölbreytt. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.“
Fréttatilkynning nr. 12/2006
Umhverfisráðuneytið