Ráðstefna á Ísafirði 20. maí 2006
Saga sjávarútvegs aðgengileg á netinu
Ritverkið Saga sjávarútvegs á Íslandi eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing er nú aðgengileg á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins. Þar er að finna öll þrjú bindin og ætti ritverkið þannig að nýtast enn betur en ella öllum þeim sem hafa áhuga á sögu sjávarútvegs á Íslandi. Slóðin er: /utgefid-efni/nr/1193
Í tilefni útkomu þriðja og síðasta bindisins var efnt til ráðstefnu á Ísafirði 20. maí s.l. undir yfirskriftinni Draumur hins djarfa manns. Þar var fjallað um ímynd og menningu íslenskra sjómanna frá ýmsum hliðum. Sjómenn í bókmenntum, í dægurlögum, líf sjómannfjölskyldunnar í landi, tungutak sjómanna og hjátrú þeirra. Innan skamms verða öll erindin aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Ráðstefnuna var mjög vel sótt. Gestir voru á níunda tuginn og var fullt út úr dyrum ráðstefnusalarins.
Í setningarávarpi sínu sagði Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra m.a.: Þetta er mikið og vandað verk sem ég er afar ánægður með. Ég vil þakka höfundi hins mikla ritverks, sem ég hygg að verði ekki einasta bautasteinn á verksögu hans, heldur einnig - og það varðar mestu - ekki síður verðugt sögulegt leiðarljós um sjávarútveginn sem muni glæða áhuga almennings á þessu mikilvæga viðfangsefni. Ritið var samið að tilhlutan sjávarútvegsráðuneytisins og var upphafsmaður þess Þorsteinn Pálsson þáverandi sjávarútvegsráðherra. Eftirmaður hans og forveri minn, Árni M. Mathiesen, var einnig mjög áhugasamur um ritun verksins og lagði því mikið lið. Hafrannsóknastofnunin undir forystu forstjóra hennar, þeirra Jakobs Jakobssonar og Jóhanns Sigurjónssonar skapaði höfundi verksins aðstöðu. Auk þeirra hafa fjölmargir aðrir veitt því lið að ljúka þessu mikla og merka verki. Kunnum við öllum þeim kærar þakkir.
- Ávarp Einars K. Guðfinnssonar
- Erindi Jóns Þ. Þórs
- Erindi Rúnars Helga Vignssonar
- Erindi Ólafs Bjarna Halldórssonar
- Erindi Unnar Dísar Skaptadóttur
- Erindi Hlífar Gylfadóttur
- Erindi Ásgeirs Tómassonar
Ánægjan leyndi sér ekki hjá ráðstefnugestum.
Sjávarútvegsráðuneytinu 22. maí 2006