Efling veiðarfærarannsókna á Ísafirði
Efling veiðarfærarannsókna á Ísafirði
Kynningarfundur um veiðarfærarannsóknir við Ísland var haldinn föstudaginn 19. maí í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði, þar sem miðstöð rannsóknanna er á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ráðinn hefur verið nýr veiðarfærasérfræðingur að stofnuninni, Ólafur Arnar Ingólfsson. Hann er að ljúka doktorsnámi í Noregi og hefur nú bæst við öflugann kjarna fyrir vestan sem myndar miðstöð veiðarfærarannsóknanna, ásamt Haraldi A. Einarssyni í Reykjavík. Að þessu markmiði hafa heimamenn, undir forystu Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, unnið ötullega árum saman.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði m.a. í ávarpi sínu á fundinum: Við verðum þess greinilega vör í alþjóðaumræðu að menn hafa skoðanir á virkni einstakra veiðarfæra og áhrifum þeirra. Til að gera okkur gildandi í þeirri umræðu þurfum við að hafa svör við spurningun manna á reiðum höndum. Þau fást ekki nema með því að beita vísindalegum aðferðum við að afla þeirra. Við eigum að vera á heimsmælikvarða á þessu sviði. Íslenskur sjávarútvegur er það almennt og ekki er ástæða til að gera minni kröfur til okkar hvað veiðarfærarannsóknir snertir.
Á fundinum, sem Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar stýrði, voru flutt fjögur stutt erindi. Hjalti Karlsson, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, lýsti uppbyggingu stofnunarinnar á sviði veiðarfærarannsókna bæði með tilliti til mannafla og tækja. Við stofnunina starfa nú þrír veiðarfærasérfræðingar, tveir á Ísafirði og einn í Reykjavík auk þess sem mikið af tækjabúnaði hefur verið keyptur á undanförnum misserum til beinna athuganna á veiðarfærum. Ólafur Arnar lýsti í stuttu máli doktorsverkefni sínu sem hann er nú að ljúka við Háskólann í Bergen, ásamt því að lýsa rannsóknaáherslum á þessu sviði í nágrannalöndunum. Því næst gerði Haraldur A. Einarsson grein fyrir þeim verkefnum sem Hafrannsóknastofnunin hefur unnið að undanfarið og mun sinna í nánustu framtíð. Einar Hreinsson leit síðan að lokum lengra fram í tímann, eftir að hafa gert fundarmönnum ljóst að hann teldi að leita þyrfti nýrra leiða til að leysa aðsteðjandi vandamál í veiðitækni.
Hvert sæti var skipað á kynningarfundinum sem liðlega fjörtíu sóttu, fulltrúar hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, útgerðarmenn, skipstjórar og fleiri. Í lok fundar var efnt til svonefnds bryggjuspjalls og spunnust þar líflegar umræður.
Starfsmenn veiðarfærarannsóknanna ásamst sjávarútvegsráðherra og forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar:
Hjalti Karlsson, Ólafur Arnar Ingólfsson, Einar Hreinsson, Haraldur A. Einarsson, Einar K. Guðfinnsson og Jóhann Sigurjónsson.
Sjávarútvegsráðuneytinu 23. maí 2006