Efnahagsleg samþætting Norðurlanda og Eystrasaltsríkja
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Með nýlegri aðild ríkja við Eystrasaltið (Eistland, Lettland, Litháen og Póllandi) að Evrópusambandinu má segja að upp hafi komið ný tækifæri og áskoranir hjá þessum þjóðum og nágrönnum þeirra á Norðurlöndum.
Lega ríkjanna færir hinn landfræðilega jaðar Evrópusambandsins austur á bóginn. Undanfarinn áratug hafa þessi ríki verið að undirbúa aðild með víðtækum skipulagsbreytingum og er árangur þegar farinn að segja til sín. Eftir áratuga stöðnun er hafin ör markaðsdrifin samþætting sem birtist í vaxandi milliríkjaverslun, beinni erlendri fjárfestingu og auknu flæði vinnuafls milli landanna. Þá hefur ákveðin efnahagsleg samþætting við nágrannaríki til austurs einnig átt sér stað. Um þessar mundir er kaupmáttur landsframleiðslu á hvern íbúa ríkjanna við Eystrasaltið meira enn helmingi lægri en á Norðurlöndunum. Það jákvæða er að hagvöxtur þeirra hefur verið umtalsvert meiri en á Norðurlöndunum undanfarin tíu ár og tekjustig þessara ríkja því tekið að þokast nær því sem þar þekkist.
Fjármálaráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þriggja, í samstarfi við fjármálaráðherra Póllands, Rússlands og Þýskalands, hafa beitt sér fyrir því að hraða efnahagslegri þróun ríkja við Eystrasaltið með það markmið að styrkja undirstöður hagvaxtar til framtíðar. Í þessu sambandi hefur verið unnin skýrsla sem greinir frá stöðu og framvindu efnahagsmála í Eystrasaltsríkjunum. Skýrslan fjallar um samþættingu fjármálamarkaða og samkeppni á vöru- og þjónustumörkuðum. Einnig er fjallað í skýrslunni um menntun og rannsóknir.
Í skýrslunni er að finna tillögur að stefnumörkun um efnahagslega samþættingu ríkja við Eystrasaltið. Stefnumörkunin lýtur að þeim þremur sviðum sem skýrslan fjallar um, þ.e. samkeppnisstefnu, fjármálastefnu og menntastefnu.