Hoppa yfir valmynd
23. maí 2006 Dómsmálaráðuneytið

Samþykkt að leigja þyrlur

Fréttatilkynning
20/2006

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra um að gengið verði til samninga um leigu á tveimur þyrlum af sambærilegri gerð og nú eru í rekstri hjá landhelgisgæslunni, til viðbótar við þær tvær þyrlur sem nú þegar eru í rekstri hjá stofnuninni. Miðað er við að þyrlurnar verði komnar til landsins eigi síðar en í september nk. Samhliða er unnið að því að ráða til landhelgisgæslunnar fleira starfsfólk þannig að unnt verði að halda úti tveimur þyrluvöktum allan sólarhringinn allan ársins hring og tryggja eftir því sem unnt er óskerta þyrlubjörgunargetu hér á landi við brotthvarf varnarliðsins frá landinu.

Á fundi ríkisstjórnarinnar 18. apríl sl. voru samþykktar tillögur dóms- og kirkjumálaráðherra um eflingu þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands. Í tillögunum felst að leigðar verði til landsins tvær þyrlur af sambærilegri gerð og nú eru í rekstri hjá landhelgisgæslunni, starfsfólki hjá landhelgisgæslunni verði fjölgað þannig að unnt verði að reka fleiri þyrlur og halda úti tveimur þyrluvöktum allan sólarhringinn allan ársins hring o.fl.

Á undanförnum vikum hefur á vegum dómsmálaráðuneytisins og landhelgisgæslunnar og með aðild utanríkisráðuneytisins og sendiráða Íslands verið kannað ítarlega hjá opinberum aðilum og einkaaðilum um heim allan, hvort þyrlur af sambærilegri gerð og nú eru í rekstri hjá landhelgisgæslunni séu til reiðu frá og með september 2006. Einkum hefur framboð á Super Puma þyrlum verið kannað, þar sem flugdrægi þeirra og björgunargeta er mun meiri en Dauphin þyrla, en landhelgisgæslan rekur nú þyrlur af þessum gerðum. Í ljós hefur komið að afar erfitt er að fá leigðar þyrlur með svo skömmum fyrirvara. Þó liggja fyrir tilboð um leigu á tveimur vélum, af Super Puma og Dauphin gerð, og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að gengið yrði til samningaviðræðna við umrædda tilboðsgjafa. Enn er þó beðið svara frá opinberum erlendum aðila og er samþykki ríkisstjórnarinnar því með fyrirvara um aðra kosti verði þeir í boði.

Gert er ráð fyrir að samið verði um leigu á umræddum þyrlum til eins árs með mögulegri framlengingu um hálft til eitt ár. Hér er um bráðabirgðalausn að ræða en að því stefnt að tillögur um framtíðarskipulag liggi fyrir í næsta mánuði.

Reykjavík 23. maí 2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta