Hoppa yfir valmynd
26. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundur fjármálaráðherra OECD

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 13/2006

Dagana 23.-24. maí var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Fundur fjármálaráðherra OECD 2006

Hinn árlegi ráðherrafundur OECD var að þessu sinni haldinn í hinum sögulegu vistarverum franska utanríkisráðuneytisins í Quai d'Orsay

Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. þróun og horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum og skipulagsáherslur í efnahagslífinu sem reynslan sýnir að auki velferð íbúa landanna. Hagvöxtur hefur haldist mikill í Bandaríkjunum og Asíu, en minni í Evrópu. Horfur eru á að alþjóðlegur hagvöxtur haldist góður í ár og á næsta ári, þrátt fyrir hærra olíuverð og óróleika á fjármálamörkuðum tengt m.a. miklum viðskiptahalla í Bandaríkjunum. Lítill hagvöxtur í mörgum ríkjum á meginlandi Evrópu og í Japan bendir til þess að enn sé þörf á skipulagsbreytingum. Í Evrópu er þörf á breyttum áherslum á vinnumörkuðum, en mikill uppsafnaður vandi er til staðar þar hvað varðar atvinnuleysi. Í Japan er staða ríkisfjármála veik og þörf á að enda hallarekstur þeirra á komandi árum. Lögð var áhersla á að slík vandamál, lítill hagvöxtur, mikið atvinnuleysi, veik staða ríkisfjármála og takmörkuð geta að bregðast við breyttum aðstæðum, megi rekja til skipulags hagkerfisins. Ráðherrar aðildarlandanna voru einhuga í að leggja áherslu á mikilvægi þess að innleiða nauðsynlegar breytingar á víðtækum grundvelli. Því fyrr sem byrjað væri að innleiða slíkar breytingar, því fyrr væri árangurs að vænta, en það væri allra hagur.

Tómas Ingi Olrich, sendiherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri

Tómas Ingi Olrich, sendiherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri

Árni M. Mathiesen ræddi m.a. um reynslu Íslendinga af miklum hagvexti undanfarin ár og óróleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu, sem hann taldi ekki ógn við fjármálastöðugleikann. Hann benti á að íslenska hagkerfið er mjög sveigjanlegt og innviðir þess traustir m.a. vegna víðtækra skipulagsbreytinga undanfarin fimmtán ár, sem hefur einnig aukið getu hagkerfisins til að ná mjúkri lendingu eftir mikið hagvaxtarskeið.

Á fundi ráðherranna var einnig rætt um málefni þróunarlanda, alþjóðaviðskiptaviðræður á vettvangi WTO og hlutverk OECD í framtíðinni.

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu (GSM 862 0017).

Fjármálaráðuneytinu, 26. maí 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum