Hoppa yfir valmynd
26. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný nöfn á sameinuð sveitarfélög

Samhliða sveitarstjórnarkosningum sem fram fara á morgun, laugardaginn 27. maí, verður framkvæmd skoðanakönnun um nýtt nafn á sjö sameinuð sveitarfélög. Samkvæmt 4. gr. sveitarstjórnarlaga ákveður sveitarstjórn nafn sveitarfélags að fenginni umsögn örnefnanefndar. Sveitarstjórn er heimilt að leita viðhorfa íbúa, t.d. með skoðanakönnun, en niðurstaða slíkrar könnunar er ekki bindandi nema annað hafi áður verið ákveðið.

Í eftirtöldum sameinuðum sveitarfélögum verða framkvæmdar skoðanakannanir um nýtt nafn.

Sameinað sveitarfélag Skilmannahrepps, Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri Akraneshrepps og Leirár- og Melahrepps.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Hafnarbyggð, Heiðarbyggð, Heiðarsveit, Hvalfjarðarbyggð og Hvalfjarðarsveit.

Sameinað sveitarfélag Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps og Kolbeinsstaðahrepps.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Borgarbyggð, Brákarbyggð, Mýrarbyggð og Sveitarfélagið Borgarfjörður.

Sameinað sveitarfélag Broddaneshrepps og Hólmavíkurhrepps.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Strandahreppur, Strandabyggð og Sveitarfélagið Strandir.

Sameinað sveitarfélag Siglufjarðarkaupstaðar og Ólafsfjarðarbæjar.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Fjallabyggð, Hnjúkabyggð, Tröllaskagabyggð og Ægisbyggð.

Sameinað sveitarfélag Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Gljúfrabyggð, Norðausturbyggð og Norðurþing.

Sameinað sveitarfélag Þórshafnarhrepps, Skeggjastaðahrepps.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Gunnólfsbyggð, Hafnarbyggð, Langanesbyggð og Langaneshreppur.

Sameinað sveitarfélag Gaulverjabæjarhrepps, Hraungerðishrepps, Villingaholtshrepps.
Kjósendum gefst kostur á að velja eitt eftirtalinna nafna:
Flóabyggð, Flóahreppur, Flóamannahreppur og Flóasveit.

Auk þess verður framkvæmd skoðanakönnun í Hörgárbyggð og Arnarneshreppi í Eyjafirði, til að kanna vilja íbúanna til sameiningar sveitarfélaganna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum