Hoppa yfir valmynd
1. júní 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sérfræðingur á sveitarstjórnarskrifstofu

Laus er til umsóknar staða sérfræðings hjá sveitarstjórnarskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Verkefni sveitarstjórnarskrifstofunnar eru einkum þau að vinna að stefnumótun í málefnum sveitarfélaga og fjalla um samskipti ríkis og sveitarfélaga og verkaskiptingu þeirra. Skrifstofan úrskurðar í umboði ráðherra um vafaatriði er varða framkvæmd sveitarstjórnarmálefna og veitir sveitarfélögum og almenningi leiðbeiningar. Skrifstofan fer jafnframt með húsnæðismál. Í því felst stefnumótun bæði varðandi hið almenna húsnæðislánakerfi og félagsleg úrræði á sviði húsnæðismála.

Leitað er eftir háskólamenntuðum einstaklingi, til dæmis lögfræðingi, stjórnmálafræðingi eða stjórnsýslufræðingi, sem er fær um að sinna fjölbreyttum verkefnum í krefjandi umhverfi og hefur mikinn áhuga og víðtæka þekkingu á viðfangsefnum skrifstofunnar. Starfsreynsla á sveitarstjórnarstigi er kostur. Enn fremur er lögð áhersla á hæfni í ræðu og riti og almenna færni í ensku og a.m.k. einu Norðurlandamáli. Góð almenn tölvukunnátta er nauðsynleg og reynsla af notkun á Lotus Notes æskileg.

Miðað er við að ráða í stöðuna sem fyrst. Um kjör fer samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Ráðning miðast við fullt starf.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Bragason skrifstofustjóri eða Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í síma 545 8100, eða í tölvupósti um netföngin [email protected] eða [email protected]

Skriflegar umsóknir með upplýsingum um menntun og fyrri störf ásamt meðmælum berist félagsmálaráðuneytinu, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík, eigi síðar en 19. júní 2006. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Vakin er athygli á því að starfið stendur opið jafnt konum og körlum.

Reykjavík, 1. júní 2006

Félagsmálaráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum