Hoppa yfir valmynd
1. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Vísinda- og tæknistefna til ársins 2009 samþykkt

Vísinda og tækniráð
Visindaogtaeknirad.gif

Vísinda- og tækniráð samþykkti vísinda- og tæknistefnu til ársins 2009 á fundi sínum í Ráðherrabústaðnum í dag.

Undanfarin þrjú ár hefur Vísinda- og tækniráð lagt mesta áherslu á innviði og skipulagsmál rannsóknarstarfseminnar, eflingu háskólanna sem rannsóknarstofnana og eflingu samkeppnissjóða og samstillingu í starfsháttum þeirra. Árangur starfsins birtist m.a. í tvöföldun ráðstöfunarfjár samkeppnissjóða og umfangsmikilli nýsköpun í skipan rannsóknarstofnana og háskóla.

Áfram verður haldið á þessari braut en í nýsamþykktri vísinda- og tæknistefnu beinist athyglin að fleiri þáttum þjóðlífsins. Undirstrikuð er staða Íslands í alþjóðlegu samhengi og sjónum beint að því að tryggja heildarsamhengi og gæði menntunar og rannsókna hjá stofnunum, fyrirtækjum og háskólum.

Í framtíðarsýn ráðsins segir m.a.: "Lykill að árangri er sýn til framtíðar og dugmikið, velmenntað fólk sem metur og hagnýtir tækifæri sem gefast við hraðfara tækni-, þjóðfélags - og markaðslegar breytingar. Skipuleggja þarf samræmda sókn ríkis og atvinnulífs er hafi það markmið að Ísland verði meðal fremstu þjóða í árangri í vísindalegum og tæknilegum framförum og þar verði öflugt, auðugt og skilvirkt atvinnulíf."

Vísinda- og tækniráð leggur höfuðáherslu á að:

  • byggja upp mennta- og vísindakerfi sem er í fremstu röð meðal þjóða, starfar í nánum tengslum við atvinnulíf og getur brugðist við hraðfara breytingum og leitt þær
  • efla opinbera samkeppnissjóði og sameina þá innan skyldra sviða
  • hvetja fyrirtæki og ríkið til að taka saman höndum um sókn í rannsóknum og þróunarstarfi til að ná betri árangri í arðbærri nýsköpun og alþjóðlegri samkeppnishæfni á grundvelli þekkingar
  • endurskilgreina hlutverk ríkisins í stuðningi við vöktun og rannsóknir í þágu almannaheilla, umhverfisverndar og efnahagsframfara með aukinn árangur að leiðarljósi

Á fundi ráðsins var einnig rætt hvernig varðveita ætti til frambúðar og hafa aðgengileg rannsóknargögn sem aflast fyrir opinbert fé og verða sífellt verðmætari eftir því sem þau ná yfir lengri tíma og verða víðtækari. Þar verður til nýr þjóðarauður sem ekki má glatast eða einangrast vegna gildist hans fyrir framtíðina.

Á fundi Vísinda- og tækniráðs var starfsnefndum þess falið að leggja fram aðgerðaráætlun til að ná framangreindum markmiðum og er gert ráð fyrir að hún verði lögð fyrir haustfund ráðsins.

Formaður ráðsins er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, en auk hans sitja í ráðinu menntamálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra ásamt 14 einstaklingum úr atvinnulífi, háskólum og rannsóknarstofnunum. Á vegum ráðsins starfa tvær nefndir sem í eiga sæti ráðsmenn aðrir en ráðherrar. Vísindanefnd starfar undir formennsku Guðrúnar Nordal prófessors og tækninefnd undir formennsku Hallgríms Jónassonar forstjóra.

Nánari upplýsingar um hlutverk og starfsemi Vísinda- og tækniráðs er að finna á vefslóðinni www.vt.is.

Meðfylgjandi er fréttatilkynningin á pdf. formi og Vísinda- og tæknistefnan fyrir tímabilið 2006 - 2009.

Fréttatilkynning

Visinda- og tæknistefna 2006-2009

 

 

                                                                       Reykjavík 1. júní 2006

 


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta