Aðkoma sveitarfélaga að hagstjórninni
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Undanfarið hafa ýmsir aðilar tjáð sig um þörf á auknu aðhaldi í hagstjórninni ekki síst vegna þess að nýjustu hagtölur benda til meira ójafnvægis í efnahagslífinu en fyrri hagtölur gáfu til kynna.
Í ljósi þessa hefur Seðlabankinn að undanförnu hækkað stýrivexti í stærri skrefum en áður. Þá hefur verið talað um að auka beri aðhald í opinberum fjármálum.
Í þessu samhengi er vert að benda á að opinber fjármál ná til bæði ríkis og sveitarfélaga. Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér hefur ríkissjóður að mestu verið rekinn með myndarlegum afgangi undanfarin tíu ár, og mest í fyrra þegar tekjuafgangurinn var tæp 4% af landsframleiðslu. Til samanburðar hafa sveitarfélögin verið rekin með tekjuhalla undanfarin tíu ár. Mestur mældist tekjuhallinn 1,1% af landsframleiðslu árið 2004, eða um 10 ma. króna. Það ár voru heildarútgjöld sveitarfélaganna tæp 9% umfram heildartekjur þeirra. Í fyrra er áætlað að tekjuhallinn hafi verði heldur minni eða 0,6% af landsframleiðslu sem er svipaður halli og gert er ráð fyrir í ár. Hallarekstur þýðir m.ö.o. að sveitarfélögin eru jafnt og þétt að safna skuldum. Áætlað er að skuldir sveitarfélaganna í heild nálgist 150 milljarða króna í ár, sem er umfram árstekjur þeirra.
Af einstökum útgjaldaþáttum ræður umfang fjárfestingar sveitarfélaganna miklu um afkomu þeirra hverju sinni. Á árinu 2004 nam fjárfesting þeirra t.d. um 20 milljörðum króna eða ríflega 17% af heildartekjum þeirra. Á yfirstandandi ári er áætlað að fjárfesting mælist rúmlega 11% af heildartekjum sem skýrir að hluta til minni tekjuhalla. Þar sem umfang sveitarfélaganna í hinum opinbera búskap er nú nálægt 30% er mikilvægt að þau séu meira samstíga ríkissjóði í fjármálaaðgerðum sínum og hægi á vexti útgjalda þegar tekjur þeirra aukast hratt. Með því geta þau greitt niður skuldir og styrkt fjárhagsstöðu sína og stuðlað að stöðugleika í efnahagslífinu.