Fundur með forsætisráðherra Rússlands
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra átti að loknum leiðtogafundi Eystrasaltsráðsins í dag fund með Mikhail Y. Fradkov forsætisráðherra Rússlands í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.
Ræddu ráðherrarnir meðal annars tvíhliða samskipti þjóðanna á sviði viðskipta, orku- og umhverfismála, ferðamála, fiskveiða og menningarmála. Ennfremur ræddu ráðherrarnir málefni norðurhafa með hliðsjón af aukinni auðlindavinnslu og flutningum á svæðinu. Að lokum kynnti Halldór Ásgrímsson framboð Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á árunum 2009 - 2010.
Reykjavík 8. júní 2006