Hoppa yfir valmynd
8. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagvöxtur í heiminum fer vaxandi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagvöxtur í heiminum hefur aukist undanfarin ár og er spáð að verða nær 5% í ár og á næsta ári.

Hnattvæðingin hefur einkennst af vaxandi þátttöku fjölmennra þróunarríkja í Asíu, Suður-Ameríku og Afríku þar sem hagvöxtur hefur verið afar mikill, allt að 10% á ári. Í OECD ríkjunum, sem telja helstu viðskiptalönd Íslands, er hagvexti spáð að vera heldur minni, eða að meðaltali um 3% í ár og á næst ári. Milliríkjaviðskipti í heiminum hafa um árabil verið að aukast um nær 8% á ári. Því er spáð að þessi þróun haldi áfram.

Mismiklum hagvexti er spáð í einstökum OECD löndum enda eru aðstæður oft ólíkar. Á evrusvæðinu hefur hagvöxtur verið lítill undanfarin ár. Vöxtur atvinnu og eftirspurnar hefur verið afar lítill í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu m.a. vegna vandamála tengdra skipulagi vinnumarkaða. Lágir stýrivextir og vaxandi eftirspurn annars staðar í heiminum hafa þó þau áhrif að hagvöxtur á evrusvæðinu er líklegur til að verða um 2% í ár og á næsta ári.

Hagvöxtur á ári

Hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur verið um 3,5% undanfarin ár, en lágir stýrivextir hafa stuðlað að aukinni eftirspurn en einnig ójafnvægi í erlendum viðskiptum. Hallarekstur hefur jafnframt einkennt ríkisbúskapinn. Vegna hærri stýrivaxta ásamt aðgerðum til að draga úr halla ríkissjóðs er því spáð að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði um 3% árið 2007. Í Bretlandi og á Norðurlöndum er þvi spáð að hagvöxtur aukist einnig og verði nær 3% á komandi ári. Í Japan er hagvöxtur nú um 3% og búist við að hann aukist á næsta ári, en stýrivextir þar hafa verið óvenju lágir um langt árabil.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta