Fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti
Fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið
Í síðustu viku tók Einar K. Guðfinnsson þátt í árlegum fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins, sem fram fór Noregi. Auk Einars tóku þátt í fundinum sjávarútvegsráðherrar Noregs, Færeyja og Grænlands, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins og fulltrúar sjávarútvegsráðherra Kanada og Rússlands. Með Einari í för voru Jón B. Jónasson ráðuneytisstjóri og Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri.
Meginefni fundarins voru tvö. Annars vegar styrking svæðisbundins samstarfs við fiskveiðistjórnun og hins vegar aðgerðir gegn ólöglegum og áábyrgum fiskveiðum.
Varðandi fyrra efnið lagði Einar m.a. áherslu á mikilvægi þess að standa gegn þróun í átt að hnattrænni nálgun við fiskveiðistjórnun. Samþykktu ráðherrarnir að þar sem ný þróun væri að eiga sér stað, svo sem varðandi vistkerfisnálgun og vernd viðkvæmra hafsvæða, ætti frekar að víkka og styrkja svæðisbundið samstarf en að þróa nýtt hnattrænt samstarf. Aðeins þannig er hægt að taka nægjanlegt mið af mismunandi aðstæðum á hverjum staða og hindra að lausnir staðbundinna vandamála séu ekki fluttar að óþörfu yfir á önnur hafsvæði. Í þessu sambandi má nefna að tillögur hafa verið settar fram innan vettvangs allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að banna togveiðar með botnvörpu alls staðar á úthöfunum. Ráðherrarnir töldu að í þessu hentaði svæðisbundin nálgun betur. Að því leyti sem þörf er á hnattrænni umræðu um þessi mál ítrekuðu ráðherrarnir að rétti vetvangurinn væri Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. en ekki allsherjarþingið.
Mestur tími fór í umræður um aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Ráðherrarnir voru sammála um að samstarf hefði eflst til muna í þessum málaflokki undanfarin misseri, en enn hefði þó ekki tekist að binda enda á þetta vandamál.
Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndin (NEAFC) samþykkti nýlega að banna skipum sem stunda ólöglegar veiðar að koma til hafnar aðildarríkja sinna. Hingað til hefur alþjóðlegt samkomulag takmarkast við að banna löndun afla slíkra skipa og að neita þeim um þjónustu. Ráðherrarnir fögnuðu þessari ákvörðun NEAFC og samþykktu að þetta skyldi verða sú nálgun sem notuð yrði annarsstaðar. Má því búast við að sambærilegt hafnbann verði samþykkt innan Norðvestur Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, og jafnvel víðar, strax næsta haust.
Til að gera alþjóðlegt samstarf gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum enn skilvirkara samþykktu ráðherrarnir að koma á fót lista yfir svonefnd sjóræningjaskip, sem næði til alls Atlantshafsins. Verður þetta gert með samstarfi allra svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana Atlantshafsins, sem halda nú þegar utan um slíka lista hver fyrir sig. Ef vel tekst til gæti þetta skilað sér í hafnbanni og öðrum samhentum aðgerðum sem næðu frá Íslandi, Grænlandi, Kanada og Noregi í Norðri til Namibíu, Suður Afríku og Argentínu í suðri.
Ráðherrarnir ræddu m.a. einnig um aðgerðir til að hindra að afurðir ólöglegra veiða komist á markað og um betri samvinnu og samhæfingu varðandi eftirlit með fiskveiðum á úthafinu.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Joe Borg sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins.
Sjávarútvegsráðuneytinu 12. júní 2006