Hoppa yfir valmynd
12. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikill straumur fólks til landsins í upphafi árs

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagstofa Íslands hefur unnið bráðabirgðaupplýsingar um búferlaflutninga fyrsta ársfjórðungs fyrir fjármálaráðuneytið.

Þar kemur fram að fyrstu þrjá mánuði ársins fluttust til landsins 2.574 manns á meðan 798 fluttust á brott. Landsmönnum fjölgaði af þessum orsökum um nær átján hundruð manns á tímabilinu. Sá mikli aðflutningur sem einkenndi síðari hluta ársins 2005 hefur því haldið áfram af fullum krafti í upphafi þessa árs. Stærsti hópur aðfluttra frá útlöndum hefur flutt á höfuðborgarsvæðið, eða um 800 manns, en tæplega 700 manns fluttu til Austfjarða.

Það vekur athygli þegar tölur um flutninga fólks innanlands eru skoðaðar að höfuðborgarsvæðið er á ný farið að taka á móti fleirum en þaðan flytja. Til samanburðar fluttust örlítið fleiri frá svæðinu innanlands en til þess á síðasta ári. Suðurland og Suðurnes fá einnig til sín fólk með þessum hætti en í öðrum landshlutum fækkar fólki vegna flutninga innanlands. Á Suðurlandi er raunar einvörðungu um að ræða aukningu í Árborg og Hveragerði. Fækkun vegna flutninga innanlands á einnig við um Austurland. Var raunar einnig svo í fyrra í flestum sveitarfélögum öðrum en á Fljótsdalshéraði. Uppbygging stóriðjunnar eystra er því enn ekki farin að hafa teljandi áhrif á íbúaþróunina.

Komið hefur fram að vinnuaflsþörfin eystra er búin að ná hámarki og því er ekki búist við framhaldi á mannfjölgun af þeim orsökum. Hins vegar er búist við áframhaldandi aðflutningi erlendis frá á suðvesturhornið, að minnsta kosti meðan umsvif eru jafn mikil og verið hefur. Þann 1. maí 2006 varð íbúum hinna nýju aðildarríkja ESB frjálst að leita hingað eftir atvinnu. Áhrif þeirrar breytingar munu koma fram í tölum um búferlaflutninga á öðrum ársfjórðungi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta