Endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla
Félagsmálaráðherra, Jón Kristjánsson, hefur skipað nefnd um endurskoðun efni laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Guðrún Erlendsdóttir, fyrrv. hæstaréttardómari, hefur verið skipuð formaður nefndarinnar.
Guðrún var fyrst íslenskra kvenna skipuð dómari við Hæstarétt Íslands. Hún var settur dómari við dómstólinn 15. september 1982 til 30. júní 1983 og var skipuð dómari við sama dómstól 30. júní 1986 frá 1. júlí sama ár. Hún hefur verið ötull talsmaður kynjajafnréttis en hún samdi ásamt Hallgrími Dalberg, ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti, frumvarp til fyrstu laganna um jafnrétti kvenna og karla frá árinu 1976. Hún átti meðal annars sæti í nefnd er skilaði frumvarpi til nýrra fóstureyðingarlaga 1971–1973, var formaður jafnlaunaráðs og formaður jafnréttisráðs frá upphafi stofnun þess 1976 til 1. desember 1979. Þá sat hún í stjórn International Organization of Women Judges frá 1992 til 1998.
Endurskoðun laganna fer fram í tilefni þess að þrjátíu ár eru liðin frá því að fyrstu lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi. Margt hefur áunnist á þeim tíma enda þótt ljóst sé að gera þurfi enn betur svo jafnrétti milli kvenna og karla verði náð. Jafnréttismálin eru sífellt að þróast og mikilvægt er að sú þróun endurspeglist í gildandi löggjöf á hverjum tíma. Aðrir í nefndinni er Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Bryndís Bjarnason Framsóknarflokki, Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, Mörður Árnason Samfylkingu, Daníel Helgason, Frjálslynda flokkinum, og Valgerður H. Bjarnadóttir Vinstrigrænum. Lögð er áhersla á að nefndin leiti í starfi sínu eftir samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins og Kvenréttindafélag Íslands sem og aðra þá aðila er láta sig jafnréttismál varða.
Enn fremur hefur félagsmálaráðherra skipað starfshóp sem ætlað er að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að jafna hlut kynjanna við næstu alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru vorið 2007. Hefur Dagný Jónsdóttir alþingiskona verið skipuð sem formaður starfshópsins. Aðrir í starfshópnum eru Gestur Guðjónsson Framsóknarflokki, Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki, Katrín Júlíusdóttir Samfylkingu, Helga Jónsdóttir, Frjálslynda flokkinum, og Katrín Jakobsdóttir Vinstrigrænum.