Hoppa yfir valmynd
16. júní 2006 Utanríkisráðuneytið

Loftferðaréttindi í Indónesíu fyrir íslenska flugrekendur

Frá undirritun loftferðarsamnings við Indónesíu
Frá undirritun loftferðarsamnings

Í viðræðum sem fram fóru dagana 15.-16. júní í Reykjavík náðist gagnkvæmt samkomulag milli Íslands og Indónesíu um loftferðir, sem veita mun íslenskum flugfélögum tækifæri til að stunda flug til og frá þremur borgum í Indónesíu, þ.e. Jakarta, Batam og Denpasar (Bali), með ýmsum tengingum við flug til annarra staða. Unnt verður að fljúga til Indónesíu með farþega og/eða vörur allt að 11 sinnum í viku, auk þess sem í samkomulaginu felst heimild til 7 leiguflugferða í hverri viku til hvaða áfangastaðar í Indónesíu sem er.

Umrætt samkomulag tekur gildi nú þegar, en stefnt er að því að loftferðasamningur milli Íslands og Indónesíu verði formlega undirritaður á næstu misserum. Í viðræðunum nú náðist fullt samkomulag um texta samningsins. Um er að ræða loftferðasamning áþekkan þeim samningum sem Ísland hefur gert undanfarin ár við mörg ríki m.a. í Asíu og Mið-Austurlöndum. Með samningsgerðum þessum hafa íslensk stjórnvöld leitast við að styðja framrás íslenskra flugrekenda sem skiptir þjóðarbúið umtalsverðu máli.

Í íslensku samninganefndinni voru Ólafur Egilsson sendiherra, formaður, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Ástríður S. Thorsteinsson lögfræðiráðunautur, og fulltrúar flugrekenda þeir Hrafn Þorgeirsson frá Icelandair, Bjarki Sigfússon frá Bláfugli og Sveinn Zoega frá Air Atlanta. – Formaður samninganefndar Indónesíu var Santoso E. Wibowo, yfirmaður loftflutninga landsins, en sendiherra Indónesíu gagnvart Íslandi, frú Retno L.P. Marsudi, sem situr í Osló, tók einnig þátt í samningsgerðinni ásamt öðrum fulltrúum lands hennar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta