Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlanda á Svalbarða
Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlanda var haldinn í dag, 19. júní, á Svalbarða. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.
Ráðherrarnir ræddu í upphafi málefni tengd Norðurslóðum, þ.m.t. umhverfismál og áhrif hlýnandi loftslags. Einnig var rætt um fiskveiðiréttindi og réttindi til auðlindanýtingar á Svalbarðasvæðinu. Forsætisráðherrar Íslands og Noregs gerðu grein fyrir sjónarmiðum þeirra varðandi þau atriði. Einnig voru Evrópumál rædd og gerði forsætisráðherra Finnlands grein fyrir formennskuáætlun Finna, en þeir taka sem kunnugt er við formennsku í Evrópusambandinu um næstu mánaðarmót. Stækkun sambandsins og stjórnarskrármál þess voru einnig til umræðu. Ýmis alþjóðamál voru jafnframt á dagskrá, þ.m.t. ástandið í Darfur og staða mála í Íran og Írak.
Að fundi loknum var farið til Nýja Álasunds þar sem hafrannsóknarstofnun var m.a. heimsótt. Fundinum lýkur síðdegis með óformlegum kvöldverði.
Næsti fundur ráðherranna er ráðgerður í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í október.
Reykjavík 19. júní 2006