Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 14/2006
Fjármálaráðuneytið hefur birt endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2005 til 2008.
Þjóðhagsspáin er uppfærð í ljósi nýrra upplýsinga um efnahagsþróun. Endurskoðaða þjóðhagsspá er að finna í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn – sumarskýrsla 2006. Í þessari skýrslu er fjallað um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2005-2008 meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Nokkrar breytingar frá aprílspá ráðuneytisins eru útskýrðar.
Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:
- Á árinu 2005 jukust einkaneysla og fjárfesting kröftuglega og þar með þjóðarútgjöld. Hagvöxtur er áætlaður að hafa verið 5,5% það ár. Árið 2006 er gert ráð fyrir að hægi á vexti þjóðarútgjalda en að aukinn útflutningur áls segi til sín og hagvöxtur verði 4,7%. Við lok núverandi stóriðjuframkvæmda árið 2007 verður umtalsverður samdráttur í fjárfestingu. Þrátt fyrir það mun bati í utanríkisviðskiptum ná að viðhalda hagvexti sem er spáð tæplega 1% það ár. Vegna áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum er spáð 2,3% hagvexti árið 2008.
- Gert er ráð fyrir að viðskiptahallinn, sem náði hámarki í fyrra þegar hann var 16,5% af landsframleiðslu, verði áfram mikill í ár, eða 15,9%. Spáð er að viðskiptahallinn minnki hratt í kjölfar vaxandi útflutnings á áli og samdráttar í innflutningi og að hann verði 7,8% af landsframleiðslu árið 2007 og 3,7% árið 2008.
- Atvinnuleysi hefur minnkað ört og áætlað er að það verði að meðaltali 1,5% af vinnuafli í ár en aukist í 2,3% árið 2007 og 3,0% árið 2008, þegar hægir á í efnahagslífinu. Gert er ráð fyrir að framleiðsluspennu gæti í hagkerfinu í ár en að hratt dragi úr henni við lok yfirstandandi stóriðjuframkvæmda.
- Mikil hækkun fasteignaverðs leiddi til þess að vísitala neysluverðs hækkaði um 4% milli áranna 2004 og 2005. Þótt verulega hafi dregið úr hraða verðhækkana á fasteignamarkaði leiðir umtalsverð lækkun á gengi krónunnar til þess að nú er áætlað að verðbólga verði 7,8% í ár, en minnki í 4,6% árið 2007 og 2,6% árið 2008.
- Þrátt fyrir tímabundið verðbólguskot er því spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 3,5% í ár, 3,3% árið 2007 og 1,9% árið 2008, m.a. vegna skattabreytinga og niðurstöðu í yfirstandandi samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins um kjaramál.
- Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða samkomulag aðila vinnumarkaðarins, frekari stóriðjuframkvæmdir, gengi krónunnar og ástand alþjóðlegra efnahagsmála.
Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.
Fjármálaráðuneytinu, 20. júní 2006