Nýting persónuafsláttar til greiðslu útsvars
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga er ákveðið hvernig skattar eru lagðir á einstaklinga, annars vegar tekjuskattur til ríkissjóðs og hins vegar útsvar til viðkomandi sveitarfélags.
Hér um tvo aðskilda skatta að ræða enda þótt álagning þeirra spili saman. Eins og kunnugt er leggja skattstjórar skatt á tekjuskattstofn einstaklinga sem nemur skatthlutfalli tekjuskatts og útsvars sem í ár er 23,75% tekjuskattur og að meðaltali 12,98% útsvar, samtals 36,73%. Frá álögðum tekjuskatti og útsvari dregst svo persónuafsláttur sem í ár er 348.343 krónur en það samsvarar því að af tekjum sem eru lægri en tæplega 950.000 krónur er ekki greiddur neinn skattur. Sveitarsjóður fær hins vegar til sín álagningarhlutfall af hverri krónu tekjuskattstofns því persónuafslætti þeirra sem hafa lægri tekjur en sem nemur skattleysismörkunum er ráðstafað til að greiða útsvarið. Frá sjónarhóli sveitarfélaga er útsvarið svokallaður flatur skattur, eitt skatthlutfall sem greiðist af tekjuskattstofninum öllum og skilar sér til sveitarfélagsins óháð persónuafslættinum.
Í nýlegu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi kom fram að undanfarin ár hafa greiðslur á persónuafslætti úr ríkissjóði til sveitarfélaga numið rúmlega 4 milljörðum króna á hverju ári. Þetta eru um 6% af álögðu útsvari í heild. Hlutfallið er lægra á höfuðborgarsvæðinu en utan þess og í allmörgum sveitarfélögum er það yfir 10% og raunar yfir 20% í nokkrum.