Leyfi til að ráða leiðbeinanda - sent skólastjórum
Til skólastjóra grunnskóla
Reykjavík, 10. mars 2006
Undanþágunefnd grunnskóla er skipuð samkvæmt lögum nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
Í nefndinni eiga sæti Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, formaður, Rósa Ingvarsdóttir, kennari, fulltrúi Kennarasambands Íslands og Kristín Aðalsteinsdóttir, dósent, fulltrúi Háskólans á Akureyri. Áheyrnarfulltrúi er Kristinn Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður og jafnframt varaformaður er Erla Ósk Guðjónsdóttir, stjórnarráðsfulltrúi í menntamálaráðuneytinu, netfang: [email protected].
Meðfylgjandi sendist yður umsóknareyðublað um heimild til að ráða leiðbeinanda.
Nefndin vill ennfremur benda yður á að hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar er lúta að starfi undanþágunefndar grunnskóla á vef menntamálaráðuneytisins menntamalaraduneyti.is.
Vakin er sérstök athygli á að til að afgreiðsla umsókna gangi fljótt og vel er nauðsynlegt að þar til gerð eyðublöð séu vandlega útfyllt og að þær upplýsingar og þau fylgigögn sem beðið er um fylgi með umsókn.
Að gefnu tilefni er sérstaklega vakin athygli á eftirfarandi:
a. að undanþágunefnd tekur til afgreiðslu eingöngu umsóknir er varða kennslustörf ekki stuðningsstörf.
b. að skv. lögverndunarlögum á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra nr. 86/1998 ber að auglýsa öll laus kennslu- og stjórnunarstörf
c. að afrit af auglýsingum þurfa að fylgja umsókn, þar sem m.a. eru tilgreindar aðalkennslugreinar og aldursstig nemenda
d. að fáist heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann gildir sú heimild aldrei lengur en til eins árs í senn
e. að ekki má endurráða slíkan starfsmann án undangenginnar auglýsingar.
Sérstaklega er vakin athygli á því að tilgreina ber í umsókn hvort um sund- og/eða íþróttakennslu er að ræða.
Ófullnægjandi umsókn, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 751/1998 um undanþágunefnd grunnskóla verður ekki tekin til afgreiðslu.
Með ósk um ánægjulegt samstarf,
f.h. undanþágunefndar grunnskóla
Sigríður Lára Ásbergsdóttir, formaður