Opinber heimsókn utanríkisráðherra Liechtenstein
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 035
Opinber heimsókn Ritu Kieber-Beck, utanríkisráðherra Liechtenstein, hófst í dag á fundi með Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Er utanríkisráðherra Liechtenstein fyrsti erlendi ráðherrann sem Valgerður Sverrisdóttir tekur á móti eftir að hún tók við embætti utanríkisráðherra.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir um EES-samstarfið, fyrirhugaðar viðræður um aðild Búlgaríu og Rúmeníu að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, áhuga Færeyja á aðild að EFTA og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Í heimsókn sinni mun ráðherrann eiga viðræður við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Ráðherrann mun einnig heimsækja Hellisheiðarvirkjun og Þingvelli. Opinberri heimsókn utanríkisráðherra Liechtenstein til Íslands lýkur í kvöld með kvöldverði í Ráðherrabústaðinum í boði Valgerðar Sverrisdóttur.
Þá mun utanríkisráðherra Liechtenstein sitja ráðherrafund EFTA í Höfn í Hornafirði sem hefst sunnudagskvöldið 25. júní 2006.