Utanríkisráðherra fundar með japanskri viðskiptasendinefnd
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 038
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með sendinefnd frá samtökunum Nippon Keidanren, sem eru stærstu samtök atvinnurekenda í Japan. Fundinn sátu einnig Odd Eriksen viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs og William Rossier framkvæmdastjóri EFTA. Þá sátu fulltrúar frá Sviss og Liectenstein fundinn.
Á fundinum var rætt um hvernig efla mætti samskipti EFTA-ríkjanna við Japan. Utanríkisráðherra fór yfir starfsemi EFTA, samskipti EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið og fríverslunarsamninga EFTA við þriðju ríki. Ítrekaði utanríkisráðherra áhuga EFTA-ríkjanna á því að hefja fríverslunarviðræður við Japan.
Heimsókn sendinefndar Nippon Keidanren hingað til lands er hluti að ferð samtakanna til EFTA-ríkjanna og Póllands. Fyrir sendinefndinni fer Hiromasa Yonekura, stjórnarformaður Sumitomo Chemical, en ásamt honum eru í sendinefndinni fulltrúar frá Toyoto, Japan Airlines, Toshiba og Mitsubishi auk fleiri japanskra fyrirtækja.