Gott ástand á Norðurlöndunum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Á fundi fjármálaráðherra Norðurlandanna sem haldinn var 20. júní var meðal annars rætt um stöðu og horfur í efnahagsmálum en almennt er mjög gott ástand í þeim efnum á Norðurlöndunum.
Hagvöxtur er almennt nokkuð mikill eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þótt hann sé hvergi eins mikill og á Íslandi. Hann er alls staðar meiri en að meðaltali á evrusvæðinu. Sem dæmi um stöðu mála upplifa Danir nú meiri hagvöxt en þeir hafa búið við í ellefu ár. Norðurlöndunum er það sameiginlegt að yfirstandandi hagvaxtarskeið er drifið áfram af aukinni einkaneyslu en vöxt hennar má rekja til lágra vaxta, vaxtar ráðstöfunartekna og bættrar eignastöðu almennings vegna hækkandi verðs á íbúðarhúsnæði. Vöxtur efnahagsumsvifa í heiminum hefur fært Norðurlöndunum auknar útflutningstekjur og það treystir undirstöður hagvaxtarins.
Atvinnuleysi fer minnkandi í öllum fimm löndunum. Það er mest í Finnlandi en þar er áætlað að það verði 7,8% í ár en fyrir utan Ísland minnst í Noregi, 3,8%. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi ekki verið minna í Danmörku í 30 ár er það þó enn 4,5%. Danir telja að við þær aðstæður sé farið að gæta þrýstings á vinnumarkaði og að í sumum greinum atvinnulífsins sé skortur á vinnuafli. Jafnframt búa Danir við þær aðstæður að þar fækkar fólki á vinnumarkaði vegna þess að fleiri hverfa af honum og fara á eftirlaun en koma inn á hann úr skólakerfinu.
Að Íslandi undanskildu er jákvæður viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum á öllum Norðurlöndunum. Hann er hvergi meiri en í Noregi þar sem áætlað er að hann verði 17% af landsframleiðslunni; hann er 6,5% í Svíþjóð og nokkru minni í Danmörku og Finnlandi. Staða opinberra fjármála er góð á öllum Norðurlöndunum þótt afkoman sé lélegust í Svíþjóð þar sem hún nemur 0,5% af landsframleiðslu. Í ár er áætlað að niðurstaðan verði nokkru betri í Danmörku og Finnlandi en hér á landi en aftur á móti færir hátt olíuverð hinu opinbera í Noregi gríðarlegar tekjur og því er áætlað að afkoma hins opinbera þar í landi muni nema rúmlega 18% af landsframleiðslunni. Verðbólga er áætluð milli 1,3 og 2,3% á Norðurlöndunum ef Ísland er undanskilið. Verðbólga fer vaxandi á öllum Norðurlöndum, en mismunandi hratt eftir einstökum löndum.