Aðildarsamkomulag að evrópska lögregluskólastarfinu undirritað
Fréttatilkynning
25/2006
Fulltrúar Lögregluskóla ríkisins, norska lögregluháskólans og evrópska lögregluskólastarfsins (CEPOL) undirrituðu í dag aðildarsamkomulag Íslands og Noregs að evrópska lögregluskólastarfinu. Undirritunin fór fram í Þjóðmenningarhúsinu og staðfesti Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra samkomulagið.
Fyrir Lögregluskóla ríkisins þýðir þessi aðild að opnað er á nánara samstarf við evrópska lögregluskóla um þjálfun og upplýsingaskipti. Meginviðfangsefni CEPOL eru að efla samstarf og virkni lögregluliða, miðla upplýsingum um niðurstöður rannsókna og starfsvenjur og annast þjálfunarnámskeið fyrir háttsetta lögreglumenn. Viðfangsefnin tengjast jafnan baráttunni gegn afbrotum, s.s. afbrotum yfir landamæri innan Evrópu, viðnámi gegn hryðjuverkum, ólöglegum innflytjendum, landamæravörslu, mannsali og hvers konar alþjóðlegri glæpastarfsemi.
Munu lögregluskólarnir verða virkir þátttakendur í starfi CEPOL og fá aðgang að rafrænu netkerfi CEPOL ásamt námsneti evrópskra lögregluliða.
Við undirritunina er lögregluskólum utan Evrópusambandsins í fyrsta sinn veitt aðild að evrópska lögregluskólastarfinu.
Reykjavík 27. júní 2006