Hoppa yfir valmynd
27. júní 2006 Matvælaráðuneytið

Leyfilegur heildarafli fiskveiðiárið 2006-2007

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári 2006-2007. Jafnframt hefur hann falið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttu veiðihlutfalli á þorski samkvæmt aflareglu.

Við ákvörðun á leyfilegum heildarafla á þorski á næsta fiskveiðiári er byggt á breyttri aflareglu þar sem aflamark ákvarðast sem meðaltal af aflamarki síðasta fiskveiðiárs og hlutfall af viðmiðunarstofni í upphafi úttektarárs, sem er í samræmi við tillögur Aflareglunefndar frá 2004. Áfram er miðað við óbreytt veiðihlutfall, 25%. Ákvörðunin hefur í för með sér lítilsháttar breytingu á heildaraflamarki í þorski frá yfirstandandi fiskveiðiári. Leyfilegur þorskafli á fiskveiðiárinu 2006-2007 verður 193 þúsund tonn, en er á yfirstandandi fiskveiðiári 198 þúsund tonn. Óbreytt aflaregla hefði haft í för með sér 187 þúsund tonna afla á næsta fiskveiðiári. Við ákvörðun á heildarafla annarra fisktegunda á næsta fiskveiðiári er í meginatriðum byggt á tillögum Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla. Heildarafli á ýsu verður þó óbreyttur frá yfirstandandi fiskveiðiári, 105 þúsund tonn, en tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar kvað á um 95 þúsund tonna afla. Þá verða nokkrar breytingar til hækkunar á heildaraflamarki nokkurra fisktegunda, m.a. steinbíts og kolategunda, frá tillögu Hafrannsóknastofnunar.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar á þessu fiskveiðiári og aflahorfur á því næsta er lagt til, í ljósi þess að hlutfall stórfisks í þorskstofninum hefur lækkað mikið á undanförnum áratugum, að sérstaklega verði farið yfir hvort þörf sé á frekari verndunaraðgerðum á hrygningarslóðum.  

 Þá hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera sérstaka úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski. Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður stofnunarinnar hefur yfirumsjón með verkinu. Ætlunin er að varpa ljósi á áhrif þess að breyta aflareglu og veiðihlutfalli eins og settar hafa verið fram hugmyndir um. Verða áhrifin metin jafnt til lengri og skemmri tíma fyrir efnahagslífið í heild, sjávarútveginn, einstök fyrirtæki, útgerðarstaði og landsvæði svo dæmi séu tekin.

Sjá reglugerð

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 27. júní 2006. 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum