Sjávarútvegsráðherra lýsir yfir stuðningi við aðgerðir Norðmanna
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra lýsir yfir stuðningi við aðgerðir Norðmanna gegn skipinu “Joana”.
Í gær ákvað norska strandgæslan að færa til hafnar í Noregi skipið “Joana” sem var að veiðum á alþjóðlegu hafsvæði norður af Noregi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem sjávarútvegsráðuneytið hefur fengið frá norska sjávarútvegsráðuneytinu er skipið þjóðernislaust. Skipið siglir ekki undir fána neins ríkis og á því eru engar merkingar um heimahöfn eða skráningarnúmer.
Íslensk stjórnvöld hafa átt samstarf við ýmsar þjóðir, þ.m.t. Norðmenn, til að efla aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Ólöglegar karfaveiðar á alþjóðlegu hafsvæði á Reykjaneshrygg eru stærsta vandamálið hvað Ísland varðar, en sambærileg vandamál eru til staðar víða um heiminn.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur komið þeim skilaboðum til hins norska starfsbróður síns að hann hafi fullan skilning á aðgerðum Norðmanna gegn skipinu “Joana” og styðji þær heils hugar. Nauðsynlegt sé að grípa til harðra aðgerða gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Það sé stórt vandamál að fánaríki bregðist í mörgum tilfellum skyldum sínum um að hafa stjórn á skipum sem sigla undir fána þess og í sumum tilfellum séu skip beinlínis þjóðernislaus. Ljóst sé að ef fánaríki stöðvi ekki ólöglegar og óábyrgar veiðar skipa sinna, eða ef skip er án þjóðernis, geti strandríkjum í sumum tilfellum verið nauðugur sá kostur einn að taka sjálf af skarið til að stöðva eða hindra veiðarnar.
Samstarf Íslands og Noregs gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum, bæði í tvíhliða samstarfi og á vettvangi svæðisbundins samstarfs, mun halda áfram. Rétt er að minna á að nýlega var samþykkt að skip sem staðin hafa verið að ólöglegum og óábyrgum veiðum á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) muni ekki fá að koma til hafnar hjá aðildarríkjunum, þ.e. Íslandi, Noregi, Rússlandi, Grænlandi, Færeyjum og Evrópusambandinu. Sjávarútvegsráðherrar Norður-Atlantshafsins ákváðu einnig á fundi sínum fyrr í þessum mánuði að stefna að samræmdum lista í Atlantshafinu öllu yfir skip sem stunda ólöglegar og óábyrgar veiðar, sem gæti skilað sér í hafnbanni og öðrum samhentum aðgerðum sem næðu frá Íslandi, Grænlandi, Kanada og Noregi í norðri til Namibíu, Suður Afríku og Argentínu í suðri.
Sjávarútvegsráðuneytið
30.júní 2006