Tillögur um nýja skipan skipulags- og byggingarmála.
Nefndir sem umhverfisráðherra skipaði til að endurskoða gildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 hafa unnið drög að frumvörpum um skipulags- og byggingarmálefni. Hér er um að ræða frumvarp til laga um mannvirki annars vegar og frumvarp til skipulagslaga hins vegar.
Frumvarpsdrögin fela í sér tillögur að breyttri stjórnsýslu skipulags- og byggingarmála og er lagt til að þau taki gildi 1. janúar 2008. Umhverfisráðherra stefnir að því að leggja frumvörpin fyrir Alþingi á komandi haustþingi.
Í frumvarpsdrögunum eru lögð til ýmiss nýmæli og breytingar. Endurskoðun byggingarþáttar laganna miðar að því að skýra ábyrgð og hlutverk aðila í mannvirkjagerð, tryggja öryggi og heilnæmi mannvirkja við framkvæmd og notkun og koma á einföldu og hagkvæmu eftirliti með samræmdum eftirlitsreglum og notkun gæðastjórnunarkerfa. Lagt er til að sett verði á fót sérstök stofnun, Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála. Meðal málaflokka sem lagt er til að verði sameinaðir undir Byggingarstofnun eru byggingarmál, brunamál, eftirlit með byggingarvörum á markaði, rafmagnsöryggismál og eftirlit með lyftum, en þessir málaflokkar hafa hingað til verið á verksviði Skipulagsstofnunar, Brunamálastofnunar, Neytendastofu og Vinnueftirlits ríkisins. Áfram er gert ráð fyrir að beint eftirlit með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingareftirlit um allt land, m.a. með gerð leiðbeininga og skoðunarhandbóka. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að fela faggiltum aðilum og skoðunarstofum byggingareftirlit. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að byggingarnefndir sveitarfélaganna verði lagðar niður og að byggingarleyfi verði gefin út af byggingarfulltrúa í stað sveitarstjórnar.
Við endurskoðun skipulagsþáttar laganna var m.a. lögð áhersla á að ferill skipulagsgerðar verði skilvirkari og sveigjanlegri, svo sem varðandi kynningu skipulagstillagna, breytingar á skipulagsáætlunum og afgreiðslu þeirra og að hlutverk og samspil skipulagsáætlana á mismunandi skipulagsstigum sé skýrt. Þá er lögð áhersla á þátt ríkisvaldsins við stefnumörkun skipulags. Eins og í gildandi skipulags- og byggingarlögum verður höfuðábyrgð á skipulagsgerð áfram hjá sveitarfélögum en lagt er til að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum með landsskipulagsstefnu sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Landsskipulag marki stefnu stjórnvalda í skipulagsmálum og fjalli einkum um þau mál sem varða almannahagsmuni. Landsskipulagsstefnu er eftir þörfum ætlað að samræma stefnu stjórnvalda í ólíkum málaflokkum sem snertir skipulagsgerð sveitarfélaga og í henni verður stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun m.a. útfærð. Landsskipulagsstefna skal lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar til 12 ára og getur hún náð til landsins alls, einstakra landshluta eða allrar efnahagslögsögunnar.
Frumvarpsdrögin eru aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins og er að öðru leyti vísað til þeirra varðandi efni þeirra.
Frumvarpsdrögin hafa verið send til umsagnar fjölmargra aðila. Hér með er öllum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpsdrögin fyrir 15. ágúst nk. Að loknum kynningartíma verður farið yfir umsagnir og athugasemdir sem berast ráðuneytinu og unnið úr þeim. Umsögnum og athugasemdum verður ekki svarað sérstaklega.
Umsagnir og athugasemdir sendist rafrænt til umhverfisráðuneytisins á netfangið: [email protected]
Frumvarp til laga um mannvirki (pdf)
Frumvarp til skipulagslaga (pdf)
Minnisblað – Helstu nýmæli frumvarps til laga um mannvirki (pdf)
Fréttatilkynning nr. 15/2006
Umhverfisráðuneytið