Hagkvæmniathugun við Kína lokið
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 039
Í dag var lokið við hagkvæmnikönnun milli Íslands og Kína vegna fríverslunarviðræðna. Í niðurstöðu könnunarinnar er lagt til að ríkin hefji fríverslunarviðræður við fyrsta tækifæri, þar sem ljóst sé að bæði ríkin muni hagnast á slíkum samningi.
Utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir og aðstoðarviðskiptaráðherra Kína, Yi Xiaozhun sátu upphaf fundar sendinefnda Íslands og Kína í utanríkisráðuneytinu í dag þar sem lokið var vinnu við hagkvæmnikönnunina. Ákvörðun um að setja slíka vinnu í gang var tekin með samningi árið 2005, en fyrri fundur um hagkvæmnikönnun var haldinn í Peking í mars s.l. og nú var lokið við þá vinnu með fundinum í Reykjavík.
Hagkvæmnikönnunin sjálf undirstrikar mikilvægi þess að lækka og afnema tolla og hindranir í viðskiptum á öllum sviðum, einkum hvað varðar viðskipti með vörur og þjónustu. Bæði ríkin eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og geta notað þá samninga sem grundvöll til að byggja á við gerð fríverslunarsamnings til að auka enn frekar frelsi í viðskiptum. Ennfremur eru tilgreind í hagkvæmnikönnuninni mörg samstarfssvið sem bent er á að geti hentað til að þróa frekar samvinnu og tækni á ýmsum sviðum, svo sem á sviði orkumála, sjávarútvegs o.fl.
Viðskipti milli Íslands og Kína hafa verið mjög vaxandi undanfarin ár, bæði hvað varðar vöruviðskipti og þjónustuviðskipti, auk þess sem íslensk fyrirtæki hafa í auknum mæli fjárfest í Kína.
Líklegt er að fríverslunarviðræður hefjist haustið 2006 og að fyrsta samningalota verði haldin í Peking.