Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Umhverfisskattar á Norðurlöndunum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á nýafstöðnum fundi norrænu fjármálaráðherranna var kynnt skýrsla um umhverfisskatta. Slík yfirlit hafa verið gefin út á 2-3 ára fresti mörg undanfarin ár en í skýrslunni nú er í fyrsta skipti fjallað um umhverfisskatta
í Eystrasaltslöndunum auk Norðurlandanna fimm.

Norðurlöndin hafa 10-20 ára reynslu af umhverfissköttum og hafa verið í fararbroddi í notkun hagrænna stjórntækja í umhverfismálum og mati á áhrifum þeirra. Þannig er löng reynsla af sköttum á losun CO2 og rannsóknir benda til að slík skattlagning hafi tilætluð áhrif. Þó er erfitt að greina sérstaklega áhrif skattlagningarinnar í mörgum tilvikum. Þá er talið að í sumum tilvikum hafi umhverfisskattar óbein áhrif með því að vekja athygli á umhverfisvandamálum af notkun tiltekinna efna. Þá er á Norðurlöndunum góð reynsla af frjálsum samningum stjórnvalda við einstakar atvinnugreinar.

Eitt af því sem hefur valdið áhyggjum varðandi umhverfisskatta er að þeir rýri samkeppnisstöðu þeirra landa sem leggja þá á. Reynslan hefur þó ekki sýnt fram á það. Þar kemur til að í sumum tilvikum er skatttekjum dreift innan atvinnugreinarinnar sjálfrar og þannig hefur skattlagningin ekki áhrif á samkeppnisstöðu. Einnig er algegnt að skattar séu endurgreiddir ef um útflutning er að ræða. Mikilvægasta málefnið í þessum málaflokki um þessar mundir er úthlutun losunarheimilda samkvæmt Kyoto bókun loftslagssamnings Sameinuðu
þjóðanna. Algengast er að orkufrekri starfsemi sé úthlutað ókeypis kvótum, líkt og gert var í upphafi kvótakerfisins í íslenskum sjávarútvegi. Rökin gegn því eru að með því fái mengandi starfsemi forskot sem minnki nauðsynina á að bregðast við með því að draga úr losun. Það vekur athygli að þau Norðurlandanna sem eru aðilar að ESB eiga nú í deilum við framkvæmdastjórnina vegna þess að ekki fæst samþykkt að sú starfsemi sem nú greiðir CO2 gjald og sem verður háð losunarheimildum verði undanþegin gjaldinu öðru vísi en að niðurfellingin teljist ríkisstyrkur. Þykir þessum ríkjum að þeim sé nú refsað fyrir fyrirhyggjuna á sínum tíma.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar nokkrar breytingar á umhverfissköttum. Þannig hafa Svíar flutt umtalsverða skattlagningu af tekjum yfir á orku, samgöngur og mengun. Eistlendingar lækkuðu tekjuskatt einstaklinga um 6% árið 2005 en lögðu í staðinn á nýja umhverfisskatta. Þá hafa verið lagðir skattar á losun ýmissa gróðurhúsalofttegunda í Danmörku og Noregi sem ekki tengjast orku. Finnar hafa hækkað svo kallaðan orkuskatt um 5%.

Skattlagning ökutækja er mikilvægur hluti umhverfisskatta á Norðurlöndunum. Stefnan í þeim málum er að skattlagningin beinist í sem mestum mæli að losun gróðurhúsalofttegunda, bæði að því er varðar innflutningsgjöld, orkugjafa og árleg gjöld.

Reynsla Lundúnabúa af skattlagningu á umferð í miðbæinn hefur leitt til þess að nú er verið að huga að sambærilegum tilraunum á Norðurlöndunum. Þannig hefur verið ákveðið að gera sjö mánaða tilraun með veggjöld í Stokkhólmi.

Hægt er að nálgast eintök af skýrslunni í ráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta