Menntamálaráðherra ákveður friðun fjögurra mannvirkja
Menntamálaráðherra hefur að fenginni tillögu húsafriðunarnefndar ríkisins ákveðið friðun eftirtalinna fjögurra mannvirkja
Menntamálaráðherra hefur að fenginni tillögu húsafriðunarnefndar ríkisins ákveðið friðun eftirtalinna fjögurra mannvirkja:
- Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg í Reykjavík. Friðunin nær til ytra borðs, ásamt aðalanddyri og stigahúsi, anddyrum við Barónsstíg og Egilsgötu auk tilheyrandi fastra innréttinga, gólfefna og frágangs. Höfundar eru arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar H. Ólafsson en byggingarstíl hússins má fremur heimfæra upp á póstmódernisma en módernisma og var á undan sinni samtíð hvað hönnun varðar. Húsið er fyrsta sérhannaða heilsugæslubygging landsins. Heilsuverndarstöðin er með merkustu opinberu byggingum í Reykjavík og jafnframt sú óvenjulegasta út frá sjónarhóli byggingarlistar.
- Rjómabúið að Baugsstöðum. Friðunin nær til ytra borðs ásamt tækjum og tólum, lausum og föstum. Til ytra borðs telst aðrennslisstokkur úr timbri ásamt loku og vatnshjóli. Húsið sjálft er bárujárnsklætt timburhús með lágu risi en varðveislugildi rjómabúsins felst einkum í menningarsögu, fágæti þess ásamt einstakri varðveislu alls þess sem kemur starfseminni við.
- Dalatangaviti. Friðunin nær til ytra og innra borðs. Dalatangaviti er elsti uppistandandi viti landsins, byggður af Otto Wathne, kaupmanni og útgerðarmanni á Seyðifirði. Veggir eru hlaðnir úr grjóti en þak er klætt bárujárni.
- Gamla sundlaugin að Seljavöllum í Rangárvallasýslu. Friðunin nær til laugarinnar, mannvirkja við hana og nánasta umhverfis, þ.e. tíu metra umhverfis laugina til suðurs, norðurs og austurs. Klettaveggur að vestan er allur friðaður. Laugin er elsta steinsteypta sundlaug landsins, þ.e. veggir úr steinsteypu eru á þrjá vegu en fjórða hliðin snýr að hallandi klettavegg með náttúrulegum heitum uppsprettum.