Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2006 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara

Yfirlýsing

ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara

Hinn 16. janúar síðastliðinn skipaði forsætisráðherra nefnd með fulltrúum ráðuneyta og Landssambands eldri borgara til að fjalla um aðbúnað og afkomu ellilífeyrisþega. Nefndin hefur í dag skilað sameiginlegum tillögum sínum.

Landssamband eldri borgara og ríkisstjórnin fagna því góða samstarfi sem tókst í nefndinni. Það er sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar séu til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspegli samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem komi til framkvæmda næstu fjögur árin eins og nánar er lýst í tillögum nefndarinnar.

Meginatriði tillagnanna eru eftirfarandi:

  • Hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga.
  • Einföldun bótakerfisins með fækkun og sameiningu bótaflokka.
  • Lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka.
  • Lækkun skerðingar bóta vegna annarra tekna bótaþega.
  • Tekið verði upp frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega.
  • Hækkun vasapeninga.
  • Starfslok verði sveigjanleg þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris.
  • Heimaþjónusta verði stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu.
  • Fjármagn sem nú gengur til reksturs stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana.
  • Verulega aukið fjármagn til framkvæmda og reksturs til átaks vegna biðlista eftir hjúkrunarrými.
  • Aukin áhersla verði lögð á fullnægjandi framboð þjónustu- og öryggisíbúða.

Ríkisstjórnin hefur þegar fjallað um framangreindar tillögur og samþykkt að beita sér fyrir framkvæmd þeirra.

Jafnframt árétta aðilar vilja til áframhaldandi samráðs um þau viðfangsefni sem tillögurnar taka til og annað það sem upp kann að verða tekið í samráðsnefnd aðila. Sérstaklega verður árangurinn metinn á miðju umræddu tímabili í ljósi þróunar verðlags, launa og efnahagsmála almennt.

Álit nefndar fulltrúa ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara

 

                                                                                                                      Reykjavík 19. júlí 2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta