Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2006 Dómsmálaráðuneytið

Dóms- og kirkjumálaráðherra gefur út umburðarbréf til lögreglustjóra vegna útihátíða. Ný reglugerðarákvæði um löggæslukostnað.

Undanfarin þrjú ár hefur Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sent ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum viðmiðunarreglur vegna útgáfu skemmtanaleyfis til útihátíða, með sérstöku tilliti til verslunarmannahelgar. Eins og kunnugt er, þá hafa nokkrar umræður orðið undanfarið um drykkjulæti á útihátíðum og mörgum þótt þau keyra um þverbak. Það er álit dómsmálaráðuneytisins að þær umræður og frásagnir bendi til þess að ekki hugi allir skipuleggjendur nægilega að þeim almennu reglum sem þeim ber að fylgja. Í ljósi þessa alls hefur ráðherra nú gefið út nýtt erindisbréf til lögreglustjóra og vill ráðuneytið vekja athygli allra sem málið varðar á efni þess, sem og þeim reglum sem gilda um endurgreiðslu löggæslukostnaðar og oft reynir á í sambandi við útihátíðir um verslunarmannahelgi.

1. Það er lögreglustjóra að meta löggæsluþörf vegna útihátíðar. Við það mat skulu lögreglustjórar taka tillit til væntanlegs gestafjölda, samsetningu gesta, staðsetningar hátíðar, hvort meðferð og neysla áfengis er bönnuð á mótssvæði o.sv.frv. Samkomuhaldari skal eiga þess kost að kynna sér tilhögun fyrirhugaðrar löggæslu. Um sérstakan löggæslukostnað vegna skemmtanaleyfa vísast til reglugerðar nr. 587/1987, eins og henni hefur verið breytt með reglugerð nr. 591/2006, sbr. og gjaldskrá um innheimtu sérstaks löggæslukostnaðar vegna skemmtanahalds, nr. 592/2006, svo og umburðarbréfs ráðuneytisins til lögreglustjóra dags. 30. maí 2003. Skulu lögreglustjórar auk þess hafa í heiðri reglur stjórnsýslulaga um meðalhóf og andmælarétt við slíka ákvörðunartöku. Þá skulu lögreglustjórar einnig hafa til hliðsjónar 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

2. Í umsókn um skemmtanaleyfi skulu mótshaldarar gera ítarlega grein fyrir hvers konar samkomu sótt er um leyfi fyrir, þ.e. hvort um sé að ræða almenna útihátíð, tónleikahald, dansleiki eða þess háttar og gera ítarlega grein fyrir fyrirhugaðri dagskrá, m.a. hvort brenna eða skoteldasýning sé fyrirhuguð.

3. Tryggt skal að mótshaldarar og aðilar frá lögreglu, heilbrigðisstofnunum, björgunarsveitum og aðrir skipuleggjendur hittist á undirbúningstímanum og samþætti vinnubrögð sín á samráðsfundum sem viðkomandi lögreglustjóri skal boða til.

4. Skipulag hátíðarsvæðis ber að miða við þær forsendur sem leiða má af umsókn um útihátíðarhald, m.a. um áætlaðan fjölda gesta, lengd hátíðar, aldursdreifingu gesta sem líklegast er að sæki hátíðina, staðsetningu hátíðarinnar o.sv.frv. Það er viðkomandi lögreglustjóra að meta hvort sá viðbúnaður sem fyrirhugaður er á hátíðarsvæði sé fullnægjandi.

5. Mótshaldara ber að tryggja í samráði við öryggis- og heilbrigðisaðila að viðbúnaður verði nægilegur vegna slysa og óhappa. Skal miða búnað og mannafla við að unnt sé að sinna jafnt smáslysum sem og alvarlegri slysum. Ef þess er kostur ber að tryggja samvinnu við nærliggjandi heilsugæslustofnanir þannig að unnt sé að leita eftir aðstoð í neyð ef mótssvæði er utan bæjarfélaga. Tryggt skal að í skipulagi fjölmennra útihátíða sé sérstaklega gert ráð fyrir móttöku og aðhlynningu þolenda kynferðisbrota eða tryggð aðstoð og aðbúnaður fyrir þá á næsta sjúkrahúsi eða heilsugæslu, þar sem þekking og reynsla starfsfólks í móttöku þolenda kynferðisbrota og ofbeldis er til staðar.

6. Gera skal skýrar kröfur um hreinsun mótssvæðis, bæði á meðan hátíð stendur og að henni lokinni. Tryggt skal að ruslagámar séu aðgengilegir og nógu margir á mótssvæði og hreinsun á rusli, glerbrotum og öðru sé næg til þess að halda mótssvæði hreinu svo ekki skapist slysahætta og sýkingarhætta vegna sorps. Ráðuneytið vekur sérstaka athygli á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem fram kemur að úthátíðir eru starfsleyfisskyldar. Í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 er að finna nánari útfærslu á framkvæmd starfsleyfisumsóknar vegna útihátíða. Skal umsókn fyrir útihátíðir ásamt fylgigögnum send heilbrigðisnefnd með minnst tveggja vikna fyrirvara, sbr. 33. gr. reglugerðarinnar.

7. Á meðan á hátíð stendur skal halda daglega samráðsfundi með yfirmönnum lögreglu, fulltrúum frá heilsugæslu, gæsluliðum og samkomuhaldara. Er það lögreglustjóra að tryggja að hinir daglegu samráðsfundir séu haldnir. Á fundum þessum skulu ofangreindir aðilar fara yfir stöðu mála á hátíðarsvæði og koma með tillögur til úrbóta hafi eitthvað misfarist í undirbúningi eða vegna einhverra atvika sem upp hafa komið í mótshaldi. Samkomuhaldara ber að tryggja að jafnan sé unnt að ná til hans eða fulltrúa hans á hátíðarsvæði. Lögreglustjóra er heimilt að boða til sérstaks samráðsfundar með ofangreindum aðilum telji hann þess þörf m.a. vegna einhverra óvæntra atvika eða ástands er upp kunna að koma á mótssvæði.

8. Við undirbúning hátíðarsvæðis ber að afmarka og girða af ákveðið svæði sem ætlað er bifreiðum samkomugesta. Þar sem því verður við komið er æskilegt að unnt sé að skipta tjaldsvæðinu upp í ákveðin hólf og afmarka þau sérstaklega. Skulu hólf þessi vera vel merkt með merkingum sem ekki er auðvelt að fjarlægja. Tryggja ber að skipulagðar séu götur og göngustígar á milli tjaldraða sem unnt er að komast eftir til að sinna öryggis- og heilbrigðisþjónustu í neyðartilvikum.

9. Mótshaldari skal hafa á að skipa nægilega mörgum starfsmönnum til virkrar gæslu á tjaldsvæðum og eftirlits á mótssvæði. Skulu þeir veita lögreglu aðstoð sé hennar óskað. Lögreglustjóra ber að ganga úr skugga um að nægilegur mannafli sé tryggður í því skyni.

10. Mikilvægt er að tryggja nægilega lýsingu á myrkum svæðum, t.d. á bílastæðum, við salerni, tjaldsvæði, matartjöld og við lögreglu- og heilsugæslumiðstöð.

11. Lögreglustjóri skal áskilja sér þann rétt að setja frekari skilyrði fyrir skemmtanaleyfi en að framan greinir, svo og til að breyta skilyrðum ef í ljós kemur að slíkt er nauðsynlegt vegna öryggissjónarmiða að mati lögreglustjóra eða fulltrúa hans, sem hefur eftirlit með að þessum skilyrðum sé fullnægt. Lögreglustjóra er heimilt að afturkalla leyfið án skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð, telji hann þess þörf vegna öryggissjónarmiða eða öðrum ástæðum. Gæta skal þess að samkomuhaldari njóti andmælaréttar áður en slík ákvörðun er tekin.


Um endurgreiðslu löggæslukostnaðar

Um endurgreiðslu löggæslukostnaðar gilda ákvæði reglugerðar nr. 587/1987, sem síðast var breytt með reglugerð nr. 591/2006. Samkvæmt reglunum skal sá sem fyrir skemmtun stendur endurgreiða lögreglustjóra þann kostnað er leiðir af aukinni löggæslu vegna skemmtunar umfram það sem eðlilegt má telja. Við mat á því hvað megi teljast eðlilegt ber lögreglustjóra að taka mið af reynslu fyrri ára vegna sambærilegra skemmtana, þeim fjölda sem búist er við að sæki skemmtun, viðbúnaði leyfishafa vegna skemmtunar, hvort áfengi er leyft á skemmtun og staðsetningu skemmtunar, það er hvort hún er haldin í þéttbýli eða í dreifbýli. Skal við það miðað að hverju sinni séu að jafnaði tiltækir tveir lögreglumenn við almenn löggæslustörf í nágrenni skemmtistaðar sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Þá er gestum er heimill aðgangur að skemmtun eftir kl. 23.30 skal sá sem fyrir skemmtun stendur endurgreiða allan löggæslukostnað. Ríkissjóður skal þó bera ferðakostnað lögreglumanna. Að jafnaði skal eigi endurkrefja kostnað vegna löggæslu lengur en sem nemur einni klukkustund eftir að skemmtun lýkur. Kostnaður vegna löggæslu getur náð til eftirfarandi útgjalda:

Launa lögreglumanna að teknu tilliti til launatengdra gjalda,
dagpeninga lögreglumanna á meðan á löggæslu stendur,
kostnaðar sem fellur til vegna aksturs um skemmtanasvæði, kostnaðar vegna uppsetningar nauðsynlegs tækjabúnaðar, svo sem fjarskiptakerfa eða síma- og tölvubúnaðar,
og kostnaðar vegna uppsetningar nauðsynlegrar vinnuaðstöðu fyrir lögreglu, svo sem skúra eða annarra vistarvera.

Við ákvörðun um löggæslukostnað ber að gæta meðalhófs þannig að aðilum sé ekki íþyngt með kostnaði umfram það sem eðlilegt getur talist. Gæta skal samræmis við ákvörðun löggæslukostnaðar innan lögregluumdæmis þannig að sambærileg mál hljóti sambærilega meðferð. Þá skal einnig gæta samræmis milli lögregluumdæma með þeim hætti að í lögregluumdæmum af sambærilegri stærð gildi sömu reglur.

 

 

 Reykjavík, 20. júlí 2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum