Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra leggur ríka áherslu á forvarnir

Blaðamannafundur í Hinu húsinu 21. júlí 2006
Blaðamannafundur í Hinu húsinu 21. júlí 2006

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, undirritaði í dag samkomulag við samtökin Ný leið um að sjá um meðferðarstarf fyrir ungt fólk með áhættusama hegðun og geð- og hegðunarraskanir. Verkefnið kallast Lífslist. Framlag félagsmálaráðuneytisins nemur 12 milljónum króna á tveggja ára tímabili.

Í samkomulaginu felst að Ný leið ehf. býður ungu fólki á aldrinum 15–18 ára upp á þann kost að stunda listsköpun og þjálfun í samskiptum og lífsleikni í því skyni að minnka líkurnar á áhættusamri hegðun. Verkefnið tekur til hóps ungmenna á höfuðborgarsvæðinu og víða um land og stendur til ársins 2008. Gert er ráð fyrir að allt að 15 ungmennum standi þessi úrræði til boða á hverri önn á höfuðborgasvæðinu og 15 – 20 manns utan höfuðborgarsvæðisins. Ný leið ehf. mun sjá um verkefnið á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni verður unnið í samráði við viðkomandi ungmennahús. Náið samstarf verður við Rauða kross Íslands.

Lífslistin byggist á erlendri fyrirmynd sem nefnist „Project Self Discovery and Natural Highs“. Reynslan af svipuðum verkefnum þykir góð og hafa rannsóknir sýnt að meðferðarúrræði, sem ekki fela í sér stofnanavistun, gagnast unglingum með hegðunarvandamál betur en að vist og meðferð á stofnun.

Við undirritun samkomulagsins lagði félagsmálaráðherra ríka áherslu á mikilvægi forvarna og að foreldrar og samfélagið allt væri vel vakandi ekki síst á næstu vikum þar sem skipulagðar útihátíðir væru framundan víða um land. Hann greindi frá því að honum hefði verið falið af ríkisstjórninni að leiða samstarf þeirra aðila sem starfa að forvörnum og móta heildstæða forvarnarstefnu hér á landi er byggi á samræmdum leiðum og betri nýtingu þeirrar fjármuna sem þegar er veitt í verkefni á þessu sviði. Tillaga að heildstæðri forvarnastefnu á Íslandi skal kynnt í ríkisstjórn eigi síðar en á fullveldisdaginn 1. desember 2006.

Myndir frá blaðamannafundi í Hinu húsinu

Hitt húsið - 21. júlí 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta