Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2006 Matvælaráðuneytið

Stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2006/2007

 

 

 

 

Stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2006/2007.

 

Í dag hafa verið gefnar út þrjár reglugerðir sem lúta að stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2006/2007. Er það reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2006/2007, reglugerð um sérstaka úthlutun til skel- og rækjubáta og reglugerð um línuívilnun.

Meginbreytingar sem verða milli fiskveiðiára eru þessar:

1.   Svonefndur jöfnunarsjóður sem úthlutað hefur verið úr 3.000 lestum af þorski árlega hefur verið felldur inn í hina almennu úthlutun. Er það í samræmi við lagabreytingu sem gerð var í sumar.

2.   Úthlutun  Byggðastofnunar og sérstök úthlutun til krókaaflamarksbáta falla niður í samræmi við ákvæði gildandi laga.

3.   Ákvæði er varða sóknardagabáta falla niður því á næsta fiskveiðiári verða öll fiskiskip sem veiðar stunda í atvinnuskyni í aflamarkskerfinu.

 

Í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2006/2007 eru tilgreindar aflaheimildir í einstökum tegundum, sem úthlutað verður á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Kemur þar fram hversu mikið kemur til úthlutunar þegar frá hafa verið dregnar þær aflaheimildir sem ráðstafað verður samkvæmt sérstökum heimildum í lögum um stjórn fiskveiða til eflingar sjávarbyggða (byggðakvóta), til stuðnings rækju- og skelbátum sem orðið hafa fyrir verulegri skerðingu aflaheimilda og loks til línuívilnunar. Samtals nema þær heimildir sem þannig eru dregnar frá rétt um það bil 12 þús. þorskígildislestum lestum og er það svipað magn og kom til frádráttar af sömu sökum á yfirstandandi fiskveiðiári.

 

Vegna byggðakvótans hefur ráðherra ákveðið að leggja fram í upphafi næsta Alþingis frumvarp þar sem m.a. verður kveðið nánar á um framkvæmd þeirrar úthlutunar. Verður því endanleg úthlutun byggðakvótans að bíða afgreiðslu þess frumvarps en eins og áður hefur komið fram hafa aflaheimildir verið teknar frá í þessu skyni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að tekið verði til skoðunar ákvæði um úthlutun bóta til báta vegna skerðingar aflaheimilda en úthlutun bóta verður ekki breytt milli fiskveiðiára að öðru leyti en því að skelbátar í Arnarfirði fá nú bætur vegna verulegs samdráttar í rækjuveiðum á síðast ári í samræmi við þær reglur sem gilt hafa þar um.

 

Að lokum vill ráðuneytið láta fram koma að ákveðið hefur verið að fresta gildistöku nýrrar reglugerðar um vigtun sjávarafa til 1. mars 2007. Er þessi ákvörðun tekin þar sem það hefur reynst meira verk en menn hugðu að breyta skráningarkerfi Fiskistofu í samræmi við þær breytingar sem ákveðnar hafa verið.

 

Reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2006/2007

Reglugerð um sérstaka úthlutun til skel- og rækjubáta

Reglugerð um línuívilnun

 

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 21. júlí 2006.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum