Helstu niðurstöður skattaálagningar árið 2006
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 18/2006
Álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem reka fyrirtæki í eigin nafni fyrir árið 2006 liggur nú fyrir.
Um er að ræða endanlega álagningu á tekjuskatti, sérstökum tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og útsvari á tekjur ársins 2005, en meginhluti álagningarinnar hefur þegar verið innheimtur í formi staðgreiðslu eða fyrirframgreiðslu á árinu 2005. Einnig er hér um að ræða álagningu á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, auk þess sem ákvarðaðar eru greiðslur barnabóta og vaxtabóta. Í ár er ekki lagður á eignarskattur, enda hefur sá skattur verið aflagður. Í fyrra nam álagning 2,8 milljörðum króna, en þá fjárhæð greiddu samtals um 76 þúsund einstaklingar, eða þriðji hver framteljandi. Frekara talnaefni um álagningu skatta á einstaklinga og ákvörðun barna- og vaxtabóta fyrir árið 2006 verður að finna á vefsíðu ríkisskattstjóra (www.rsk.is) undir Staðtölur skatta.
Upplýsingar um álagningu skatta sýna að árið 2005 bjuggu heimilin í landinu við verulega auknar tekjur og kaupmátt og bætta eignastöðu.
Helstu niðurstöður álagningarinnar nú eru eftirfarandi:
- Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2006 er 241.344 og hefur þeim fjölgað um 6.900 einstaklinga, eða 2,9% frá fyrra ári. Svo mikil fjölgun framteljenda hefur ekki sést áður og stafar hún af aðfluttu vinnuafli sem telur fram til skatts hér á landi.
- Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 163,5 milljörðum króna og hækkar um tæp 13% frá fyrra ári. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í almennan og sérstakan tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.
- Almennan tekjuskatt, samtals 72,6 milljarða króna, greiða 163.450 einstaklingar, eða ⅔ hlutar framteljenda. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur hækkað um 4,3% milli ára, mun minna en gjaldstofninn, sem hækkaði um tæp 9%, enda lækkaði tekjuskattshlutfallið úr 25,75% í 24,75% í upphafi ársins 2005.
- Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 77,7 milljörðum króna og hækkar um 12,5% frá fyrra ári. Gjaldendur útsvars eru 234.171. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 9% milli ára.
- Greiðendum sérstaks tekjuskatts fjölgar verulega, eða úr liðlega 17 þúsund gjaldendum árið 2005 í 24 þúsund í ár. Álagning hans dregst hins vegar saman úr 1,4 milljarði í 1 milljarð króna vegna lækkunar skatthlutfallsins úr 4% í 2%. Þessi skattur er nú lagður á í síðasta sinn.
- Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 12,2 milljörðum króna og hækkar um liðlega 60% milli ára. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru tæplega 85 þúsund og fjölgar um tæp 10% milli ára. Mikil hækkun fjármagnstekjuskatts skýrist bæði af auknum hagnaði af sölu hlutabréfa og auknum arðgreiðslum hjá einstaklingum. Tekjur af fjármagnstekjuskatti hafa nær þrefaldast á síðustu þremur árum..
- Framtaldar eignir heimilanna námu tæplega 2.500 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um rúmlega 27% frá fyrra ári. Fasteignir eru nær ¾ hlutar af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um rúmlega þriðjung milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði um 2.025, mun meira en á fyrra ári. Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 918 milljörðum króna í árslok 2005 og höfðu þær vaxið um liðlega 21% frá árinu 2004. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa jukust hins vegar minna, eða um tæp 18%, og námu tæplega 600 milljörðum króna. Til samanburðar er framtalið verðmæti fasteigna í eigu einstaklinga 1.824 milljarðar. Af þessu leiðir að hlutfall framtalinna íbúðarskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis lækkar milli ára þrátt fyrir umtalsverða aukningu skulda. Hlutfall framtalinna heildarskulda á móti heildareignum lækkar einnig, úr 39,3% í 37,4%.
- Á þessu ári verða greiddir út réttir 6 milljarðar króna í barnabætur samanborið við 5 milljarða króna í fyrra sem er 20% aukning. Þá fjölgar þeim sem bótanna njóta um 3% frá síðasta ári, eða um 1.600 einstaklinga, en barnabótum er skipt milli hjóna og sambýlisfólks. Þessi aukning er í samræmi við þær breytingar sem samþykktar voru á barnabótakerfinu í lok árs 2004, sem koma til framkvæmda á þessu ári og því næsta.
- Ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2005, nema 4,5 milljörðum króna í ár sem er lækkun um rúm 13% frá fyrra ári, eða tæpar 700 m.kr. Mikil hækkun fasteignamats á íbúðarhúsnæði milli áranna 2004 og 2005 ásamt tekjuaukningu veldur væntanlega mestu um lækkunina, en vaxtabætur skerðast með auknum eignum og tekjum. Vaxtabótaþegum fækkar til muna, eða um 10 þúsund einstaklinga og verða þeir tæplega 44 þúsund talsins. Vaxtabótum er skipt á milli hjóna og sambýlisfólks. Meðalbætur á hvern vaxtabótaþega eru 102 þúsund krónur samanborið við tæpar 96 þúsund krónur í fyrra og hækka því um tæplega 7% milli ára.
-
Tæpir 8 milljarðar króna koma til útborgunar 1. ágúst n.k. Þar af eru vaxta- og barnabætur kringum 5 milljarðar eftir skuldajöfnum á móti ógreiddum sköttum. Afgangurinn, um 3 milljarðar króna, eru ofgreidd staðgreiðsla eða fyrirframgreiddir skattar af tekjum síðasta árs. Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári og kemur síðasti hluti þeirra, 1,6 milljarðar króna, til útborgunar 1. nóvember n.k.
Fjármálaráðuneytinu 26. júlí 2006