Telja hafnabætur á Breiðafirði nauðsynlegar
Aukin umferð vegna atvinnurekstrar og ferðamanna kallar á úrbætur í hafnamálum á ýmsum stöðum á Breiðafirði. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að búseta á nokkrum eyjum á Breiðafirði, aukin starfsemi ferðaþjónustu og síaukin umferð skemmtibáta útheimti ákveðnar úrbætur á hafnarmannvirkjum.
Sturla Böðvarsson kynnti sér aðstöðu í nokkrum höfnum og lendingarstöðum á Breiðafirði síðastliðinn miðvikudag og ræddi við heimamenn um hvaða verkefni væri brýnt að ráðast í á þeim sviðum. Ráðherra sagði að við sameiningu sveitarfélaga við Breiðafjörð hefði verið lofað ýmsum úrbótum í hafnamálum sem ekki hefði alls kostar verið staðið við. Kvaðst hann leggja áherslu á að hrinda þeim í framkvæmd á næstu misserum.
Á fundi í Flatey með fulltrúum eyjabbænda, Framfarafélags Flateyjar og Sæferða, sem rekur meðal annars Breiðafjarðarferjuna Baldur, kom fram að brýnt er að lengja nokkuð bryggjuna í Flatey. Nýi Baldur er um 60 m langur en bryggjukanturinn aðeins um þriðjungur af lengd hans og því talið nauðsynlegt að lengja hann sem unnt er annað hvort inn til landsins eða í vesturátt. Einnig kom fram hjá heimamönnum í Flatey að bæta þyrfti aðstöðu fyrir smábáta, bæði heimabáta og ferðamenn sem þar hafa viðdvöl í auknum mæli.
Fulltrúar Reykhólahrepps ræddu við ráðherra í höfninni á Stað og kom þar fram að brýnt væri að stækka og dýpka poll sem byrjað hefði verið á fyrir nærri tveimur áratugum til að hún nýttist almennilega. Í dag yrði að sæta sjávarföllum til að nýta hana sem kostaði mikið umstang. Einnig þyrfti að vera þar flotbryggja. Þá er talið að ráðast þurfi sem fyrst í nokkra dýpkun við innsiglinguna að Reykhólum.
Ráðherra heimsótti einnig Hvallátur þar sem æðarvarpið er nytjað ríkulega og bændur í Skáleyjum þar sem búseta er nánast árið um kring eins og í Flatey en þar er einnig æskilegt að vinna að ákveðnum lagfæringum.
Heimamenn sem tóku á móti samgönguráðherra og fylgdarliði sögðu slíka ráðherraheimsókn kærkomna og gott tækifæri hefði gefist til að ræða við ráðamenn og sýna þeim hvar brýnt væri að ráðast í umbætur. Sturla Böðvarsson sagði að ábendingar yrðu teknar til umfjöllunar í samgönguráðuneytinu og Siglingastofnun. Næstu skref sagði hann vera gerð frumáætlunar um nauðsynlegar framkvæmdir og útreikning á kostnaðaráætlunum og í framhaldi af því yrði aftur rætt við fulltrúa heimamanna.
Með ráðherra í för voru fulltrúar samgönguráðuneytisins ásamt fulltrúum frá Siglingastofnun, Siglingaráði, Hafnaráði, Rannsóknanefnd sjóslysa og bæjaryfirvalda í Stykkishólmi.