Gunnar Snorri Gunnarsson nýr sendiherra í Kína
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 047
Ákveðið hefur verið að Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra, hefji störf í Beijing sem sendiherra Íslands gagnvart Alþýðulýðveldinu Kína um miðjan september næstkomandi.
Gunnar Snorri var skipaður ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins árið 2002, en hafði fram að þeim tíma gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum sem sendiherra á erlendum vettvangi fyrir Íslands hönd, einkum á sviði viðskipta- og Evrópumála.
Samskipti Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína hvíla á traustum grunni og hafa eflst verulega síðastliðin ár. Fjölbreytt tvíhliða samskipti á fjölmörgum sviðum hafa einkennt samskipti landanna sem og traust tengsl stjórnvalda beggja ríkjanna.
Á næstum misserum eru ráðgerðar umfangsmiklar viðræður milli íslenskra og kínverskra stjórnvalda um framtíðarskipan viðskiptamála og efnahagssamvinnu ríkjanna, sem miði að því að auka viðskipti milli Íslands og Kína. Gert er ráð fyrir því að Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra, muni leiða þær viðræður.
Æviágrip Gunnar Snorra Gunnarssonar, sendiherra, fylgir í viðhengi með fréttatilkynningu þessari.
Æviágrip - Gunnar Snorri Gunnarsson