Reglugerðir um skemmtibáta í smíðum
Drög að nýjum reglugerðum er varða skemmtibáta eru nú til vinnslu á vegum samgönguráðuneytis. Gefinn er frestur til að veita umsagnir um drögin til 15. september næstkomandi.
Reglugerðardrögin eru annars vegar um björgunar- og öryggisbúnað skemmtibáta og hins vegar drög að breytingum á reglugerð um skoðanir á skipum og búnaði þeirra sem varða skemmtibáta.
Málið hefur verið í vinnslu allt frá árinu 2004 þegar samgönguráðuneytið fól Siglingastofnun að kanna með hvaða hætti skemmtibátar eru skráðir í nágrannalöndunum, hvaða kröfur eru gerðar til þeirra, meta rök sem eru fyrir kröfum um íslenska skemmtibáta og hvort draga skuli úr kröfum til innlendra skemmtibáta kæmi það á daginn að þær þættu of ríkar og íþyngjandi. Í maí 2005 lá úttekt Siglingastofnunar fyrir og var henni þá falið að útfæra tillögur um búnað skemmtibáta og skoðanir á þeim.
Drögin um björgunar- og öryggisbúnað skemmtibáta gera ráð fyrir að hann ráðist af stærð bátanna og farsviði þeirra. Var ákveðið að takmarka gildissviðið við skemmtibáta sem eru allt að 24 metrar að skráningarlengd. Í hinum drögunum er gert ráð fyrir nýju fyrirkomulagi á skoðunum á skemmtibátum sem eru eiginskoðanir eiganda eða annars aðila sem hann telur til þess hæfan. Með því er eigendum skemmtibáta veitt aukið svigrúm til að haga skoðunum á sem hagkvæmastan hátt en reglugerðin leggur jafnframt aukna ábyrgð á herðar þeim sem annast eiginskoðanir.
Leitað hefur verið álits fulltrúa skemmtibátaeigenda og Siglingaráðs. Hér með er þeim sem málið varðar gefinn kostur á að kynna sér reglugerðardrögin. Gefinn er frestur til 15. september til að koma á athugasemdum sem sendast skulu á [email protected].
Drögin að reglugerðunum eru á vef ráðuneytisins undir hlekknum Drög til umsagnar sem má finna hér.