Þörfnumst við CFC-löggjafar?
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Skattlagning eignarhaldsfélaga í eigu íslenskra aðila sem staðsett eru á lágskattasvæðum hefur verið til umræðu að undanförnu.
Í því sambandi hefur sérstaklega verið bent á nauðsyn þess að lögfesta svokallaðar CFC-reglur, en meginmarkmið þeirra er að koma í veg fyrir óeðlilegan tilflutning skatta frá einu ríki til annars í þeim eina tilgangi að komast undan eða lágmarka skattgreiðslur. Það er gert með þvingaðri samsköttun innlendra og erlendra skattaðila. Þessum reglum er einkum beint að skattlagningu fjármagnstekna, s.s. arði, vöxtum og þóknunum, sem gjarnan eru nefndar óvirkar tekjur (passive income). CFC er skammstöfun á ensku orðunum Controlled Foreign Company og þýðir erlent félag undir stjórn eða í eigu innlends aðila. Mörg ríki hafa þegar sett sérstaka CFC-löggjöf, þar sem sérstaklega er kveðið á um skattalega meðferð slíkra félaga. Þar á meðal eru Norðurlöndin ef frá er talið Ísland. Reglurnar er mjög mismunandi milli landa og ganga mislangt gagnvart erlenda aðilanum.
Grunnregla skattalaga er sú að ríki skattleggur aðeins tekjur sem tengjast með ákveðnum hætti lögsögu þess. Þau tengsl geta verið tvíþætt. Annars vegar ráðast þau af skattalegu heimilisfesti einstaklings eða lögaðila og er þá skattaðilinn skattskyldur af öllum tekjum sínum óháð því hvar í heiminum þeirra er aflað (ótakmörkuð skattskylda). Hins vegar ræðst skattskyldan af uppruna teknanna án tillits til þess hvar sá aðili sem nýtur þeirra hefur skattalegt heimilisfesti (takmörkuð skattskylda).
Vaxandi alþjóðavæðing með frjálsum fjármagnsflutningum hefur raskað þessum grunnreglum, ekki síst þegar hinar auðflytjanlegu fjármagnstekjur eiga í hlut. Hefur tilhneigingin þannig verið sú að færa slíka tekjustofna til lágskattasvæða, í mörgum tilvikum án þess að með fylgi virk starfsemi, en óeðlilega hátt hlutfall kostnaðar er gjaldfært í ríki þar sem skattar eru hærri. CFC-reglum er ætlað að sporna gegn þessu með þvingaðri samsköttun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í því felst að tekjur erlenda aðilans eru skattlagðar í hendi þess innlenda samkvæmt skattareglum þess ríkis þar sem innlendi aðilinn hefur skattalegt heimilisfesti.
Í CFC-löggjöf eru tilgreind efnisleg skilyrði til að beita samsköttun þvert á almenn markmið um skattalegt heimilisfesti. Í því sambandi er oft horft á skatthlutfall erlendra ríkja samanborið við það sem gildir í heimaríkinu og gjarnan búinn til svartur listi yfir þau ríki sem ekki uppfylla þau skilyrði. Sem dæmi gerir sænska CFC-löggjöfin ráð fyrir að lágskattasvæði séu þau ríki þar sem tekjuskatthlutfall fyrirtækja er innan við 55% af skatthlutfalli Svía, sem í dag er 28%. Ríki með tekjuskattshlutfall lögaðila undir 15-16% teljast samkvæmt skilgreiningu Svía lágskattasvæði. Þá ræðst þvinguð samsköttun einnig af því hversu rík yfirráð innlendi aðilinn hefur yfir hinu erlenda félagi í formi eignarhalds eða atkvæðisréttar.
Hér á landi er ekki í gildi sérstök CFC-löggjöf eins og áður sagði. Undanfarin misseri hafa sérfræðingar fjármálaráðuneytisins unnið að sérstakri athugun á þessu sviði, meðal annars með hliðsjón af þróuninni á alþjóðavettvangi. Ljóst er að setning almennra lagareglna um þvingaða samsköttun er snúið verkefni og snertir mörg svið. Spurningar hafa vaknað um samspil slíkrar löggjafar og tvísköttunarsamninga og sömuleiðis gagnvart ákvæðum EES-samningsins í ljósi ýmissa mála sem upp hafa komið innan ESB. Jafnframt þarf að gæta meðalhófs í setningu slíkra reglna þannig að þær nái til raunverulegra sýndargerninga í skattalegum tilgangi en bitni ekki á erlendum fyrirtækjum í eigu íslenskra félaga sem rekin eru á eðlilegum viðskiptalegum grunni. Áfram verður unnið að þessu verkefni á næstunni.
Í þessari umræðu gleymist gjarnan að í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru ákvæði sem ætlað er að sporna gegn skattalegum sýndargerningum með almennum hætti. Í 9. tölul. 31. gr. er meðal annars kveðið á um frádráttarbærni arðs frá erlendum hlutafélögum hjá innlendu félagi svo fremi sem hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi. Jafnframt má benda á 57. gr. tekjuskattslaganna, um óvenjuleg skipti í fjármálum, sem gegnir að mörgu leyti sambærilegu hlutverki og CFC-löggjöf annarra ríkja. Því ákvæði hefur ekki hvað síst verið beitt í tilvikum lítillar eða óeðlilegrar eiginfjármögnunar (thin capitalization), þar sem móðurfélag lánar dótturfélagi eða öfugt á óeðlilegum vaxtakjörum í því skyni að lágmarka skattstofninn þar sem skattar eru hærri.