Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Vitaskilti við Húsavíkurhöfn

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók formlega í notkun í gær, föstudag, upplýsingaskilti um vita á Norðausturlandi sem komið hefur verið fyrir við Húsavíkurhöfn. Hörður Sigurbjarnarson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar, hafði forgöngu um málið með stuðningi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Siglingastofnun.

Vitaskilti0026
Sturla Böðvarsson opnar formlega vitaskiltið við Húsavíkurhöfn. Hörður Sigurbjarnarson fylgist með.

Á skiltinu er að finna myndir og upplýsingar um vita á svæðinu frá Gjögurtáarvita í vestri og austur fyrir Langanes. Tilgangurinn er að vekja athygli á vitunum og umhverfi þeirra þar sem náttúran er yfirleitt stórbrotin og fuglalíf fjölbreytt. Samgönguráðherra sagði þetta þarft framtak og mikilvægt væri að minna á vitana og hvetja menn til að heimsækja þá og þakkaði hann forgöngumönnum málsins fyrir framtakið.

Við sama tækifæri átti samgönguráðherra fund með fulltrúum sveitastjórnar hins nýja sveitarfélags, Norðurþings, en hann sátu einnig fulltrúar Norðursiglingar og Atvinnuþróunarfélagsins. Var þar meðal annars rætt um ýmsar hliðar ferðamála, svo sem hvalaskoðun, hrefnuveiðar og samgöngumál og lögðu Þingeyingar meðal annars áherslu á nauðsyn þess að Dettifossvegur kæmist sem fyrst í gagnið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta