Fjölþjóðleg ráðstefna um sjóræningjaveiðar
Fjölþjóðleg ráðstefna um sjóræningjaveiðar
Fjölþjóðleg ráðstefna um ólöglegar og óábyrgar fiskveiðar hentifánaskipa, s.k. sjóræningjaveiðar, var haldinn í Þrándheimi í Noregi 7. ágúst 2006. Ráðherrar frá Noregi, Svíþjóð, Skotlandi, Portúgal og Marokkó tóku þátt í ráðstefnunni ásamt fulltrúum Íslands, Bretlands, Þýskalands og Evrópusambandsins.
Á fundinum var samkomulag um alls ellefu atriði sem ríki þurfi sameiginlega að vinna að í baráttu sinni gegn ólöglegum og óábyrgum veiðum. Fundarmenn voru sammála um að ólöglegar og óábyrgar veiðar hentifánaskipa væru alvarlegt alþjóðlegt vandamál sem taka þurfi á með enn ákveðnari hætti en fram að þessu hefur verið gert. Í yfirlýsingu sem samþykkt var á fundinum segir m.a. að sjóræningjaveiðar séu einskær þjófnaður frá þeim sjómönnum sem veiði í samræmi við ábyrga stjórnun og nýtingu fiskistofna. Ítrekað var gildi þess að halda áfram, auka og styrkja samstarf ríkja sem berjast gegn ólöglegum veiðum hentifánaskipa. Sérstaklega beri að efla þetta samstarf á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistofnana, s.s. með auknu eftirliti, upplýsingagjöf og hertum viðurlögum gagnvart þeim skipum sem uppvís hafa orðið og verða að því, að stunda ólöglegar veiðar. Bent var á þá afdráttarlausu kröfu að fánaríki hefðu eftirlit með skipum sínum og tryggðu að skip sem sigla undir þeirra fána fari að alþjóðlegum skuldbindingum og gripið verði til viðeigandi ráðstafana gagnvart þeim verði þau uppvís af ólögmætu athæfi, hvort sem er innan lögsagna eða á úthafinu. Jafnframt var samstaða um að auka og efla hafnaeftirlit einsog lagt hefur verið til bæði á vettvangi úthafsveiðisamningsins og FAO.
Fundarmenn voru sammála um að koma þurfi í veg fyrir að sjóræningjaskip geti komið til hafnar í ríkjunum sem fulltrúa áttu á fundinum svo og að skipunum sé veitt nokkur þjónusta. Koma þurfi í veg fyrir að afurðir sjóræningjskipa komist á markað s.s með auknum rekjanleika sjávarafurða og upplýsingum til kaupenda og seljenda sjávarafurða.
Stefán Skjaldarson sendiherra í Noregi tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslands.
Hann sagði m.a. í ávarpi sínu að ef þær aðgerðir sem beitt hafi verið gegn sjóræningjaveiðum skili ekki árangri, sé e.t.v. tímabært að grípa til harðari aðgerða til að stöðva þessar veiðar.
Sjávarútvegsráðuneytinu 9. ágúst 2006