Fjölgun kennara í grunnskólum 1998-2005
Í fréttaflutningi og umræðu um menntamál í skýrslu Efnahags– og framfarastofnunarinnar (OECD), Economic Survey of Iceland 2006, sem gerð var opinber miðvikudaginn 9. ágúst hefur því verið haldið fram að fjölgun starfsliðs í grunnskólum hafi svo til eingöngu verið meðal þeirra sem ekki vinna við kennslu, s.s. stuðningsfulltrúa, sálfræðinga og námsráðgjafa.
Í þessu sambandi vill ráðuneytið benda á að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands fjölgaði þeim sem vinna við kennslu í grunnskólum, þ.e. grunnskólakennurum, leiðbeinendum og stjórnendum úr 4.045 árið 1998 í 4.841 árið 2005, eða um 20%. Stöðugildum fyrrgreindra fjölgaði á sama tímabili um 33% en stöðugildum í heild í grunnskólum um 38%. Kennarar með kennsluréttindi voru árið 1998 82% kennara en árið 2005 voru þeir 87% kennara.
Fjöldi nemenda á hvern kennara var 11,4 árið 1998 en 9,8 árið 2005. Sé miðað við stöðugildi kennara voru sambærilegar tölur 13,3 og 10,2.