Skýrslur alþjóðastofnana um íslensk efnahagsmál
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Tvær alþjóðastofnanir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) í Washington og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) í París, hafa nýverið gefið út skýrslur um íslensk efnahagsmál.
Stofnanirnar gera reglubundnar efnahagsskýrslur um Ísland í þeim tilgangi að bæta umræðu um hagstjórn og benda stjórnvöldum á það sem betur má gera til að bæta árangurinn í efnahagsmálum. Sú vinna hefur jafnframt það markmið að bæta ástand alþjóðlegra efnahagsmála, m.a. með því að auka hagvöxt og fyrirbyggja ójafnvægi á fjármálamörkuðum. Þótt skýrslurnar séu um margt áþekkar eru þær einnig ólíkar. Segja má að OECD leggi mesta áherslu á leiðir til að auka sjálfbæran hagvöxt í aðildarríkjum sínum en IMF leggi áherslu á aðgerðir sem hafa það markmið að viðhalda stöðugleika í alþjóðlegu fjármálalífi. Framlag beggja stofnana er mikilvægt innlegg í efnahagsumræðu hvers lands og full ástæða til að taka tillit til ummæla og ábendinga þeirra.
Í efnahagsskýrslu OECD um einstök aðildarríki stofnunarinnar er að finna víðtæka greiningu á efnahagsmálum viðkomandi ríkis. Til viðbótar við greiningu á framvindu efnahagsmála og efnahagsstjórn felur efnahagsskýrsla OECD í sér ítarlega greiningu og ráðleggingar varðandi starfsemi og áhrif einstakra markaða og framkvæmd opinberrar þjónustu á mikilvægum sviðum. Sú greining byggist á kerfisbundnum samanburði á reynslu hinna þrjátíu þróuðu lýðræðisríkja með markaðsstarfsemi sem aðild eiga að OECD. Gerð skýrslunnar hefst með nákvæmri upplýsingaöflun sem innifelur fundahöld með breiðum hópi aðila sem hafa áhrif á og fylgjast með efnahagsmálum landsins. Drög að efnahagsskýrslu OECD eru rædd í hagþróunarnefnd OECD þar sem árangur hagstjórnar og skipulagsmála einstakra aðildarríkja er metinn á 18 til 24 mánaða fresti af fulltrúum allra aðildarríkjanna. Það ferli umfjöllunar er nefnt „jafningjaskoðun“ (Peer Review) og hin endanlega skýrsla felur í sér sameiginlegt álit allra aðildarríkja OECD á viðkomandi landi. Sérfræðingar stjórnvalda viðkomandi lands fá tækifæri til að svara spurningum nefndarmanna og kynna sjónarmið stjórnvalda áður en skýrslan er samþykkt til útgáfu. Fjármálaráðuneytið sér um samskipti við OECD.
Í áliti sendinefndar IMF um einstök ríki er að finna ítarlega greiningu á stjórn efnahagsmála og starfsemi fjármálakerfisins. Álitið er grundvallað á sambærilegri undirbúningsvinnu og að ofan greinir sem sjóðurinn framkvæmir á eins til tveggja ára fresti fyrir velflest lönd í heimi. Frumniðurstöður sendinefndar IMF eru kynntar fjölmiðlum að loknum fundahöldum. Í kjölfar þess er skýrslan skrifuð og rædd af stjórn sjóðsins áður en hún er samþykkt til útgáfu. Jafnframt fær fulltrúi viðkomandi lands tækifæri til að kynna stjórn sjóðsins sjónarmið stjórnvalda. Seðlabanki Íslands sér um samskipti við IMF.