Evrópskur tungumáladagur 26. september 2006
Menntamálaráðuneyti hvetur skóla, aðrar fræðslustofnanir og hagsmunaaðila til að minnast Evrópsks tungumáladags hinn 26. september 2006 og vekja þannig með einhverjum hætti athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og símenntunar í tungumálum. Vakin er athygli á bæklingi með fjölmörgum hugmyndum að mögulegum verkefnum og aðgerðum á tungumáladeginum. Bæklinginn má nálgast á vef ráðuneytisins. Slóðin er www.menntamalaraduneyti.is/raduneyti/althjodlegt-samstarf og menntagatt.is. Þar er einnig að finna frekari upplýsingar um tungumáladaginn. Jafnframt er bent á vef Evrópuráðsins vegna tungumáladagsins þar sem m.a. er unnt að skrá viðburði dagsins, senda rafrænt póstkort og taka þátt í spurningaleik. Slóðin er www.coe.int/edl. Í ráðuneytinu má einnig nálgast íslenska útgáfu sérstaks veggspjalds frá Evrópuráðinu. Er það sent samkvæmt beiðni einstakra skóla eða hagsmunaaðila. Einnig má óska eftir að ofangreindur bæklingur verði sendur.
Að frumkvæði Evrópuráðsins hefur tungumáladagsins verið minnst frá árinu 2001 með ýmsu móti í Evrópulöndum, þ.m.t. á Íslandi. Markmið Evrópska tungumáladagsins eru einkum eftirfarandi:
- Vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og fjölbreytts tungumálanáms til að auka fjöltyngi og skilning á ólíkri menningu þjóða
- Stuðla að því að viðhalda fjölbreytileika tungumála og menningar í Evrópu
- Hvetja til símenntunar í tungumálanámi, bæði innan skólakerfisins og utan þess.
Tengiliður við verkefnið í menntamálaráðuneytinu er Guðni Olgeirsson, sími 545 9500, netfang: [email protected].
Þess er vænst að Evrópskur tungumáladagur 2006 hafi jákvæð áhrif á tungumálanám og tungumálakennslu og verði einstaklingum hvatning til símenntunar á því sviði.