Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Þorgeir Pálsson forstjóri Flugstoða ohf.

Þorgeir Pálsson flugmálastjóri hefur verið ráðinn forstjóri opinbera hlutafélagsins Flugstoða ohf. Tekur hann við starfinu um næstu áramót þegar Flugstoðir taka formlega til starfa. Fram að því gegnir hann áfram starfi flugmálastjóra en hann tók við því embætti 1992.

Flugstoðir ohf. voru stofnaðar 6. júlí síðastliðinn og er tilgangur félagsins að taka við margs konar þjónustu sem Flugmálastjórn Íslands hefur haft með höndum, svo sem rekstri flugleiðsöguþjónustu og flugvalla. Starfsmannafjöldi Flugstoða verður um það bil 220 og undir félagið fellur einnig stjórn dótturfélaganna Flugfjarskipta ehf. og Flugkerfa ehf. en alls starfa um 80 manns hjá þeim félögum.

Unnið er nú að því í samgönguráðuneytinu að undirbúa aðskilnað þjónustustarfsemi og stjórnsýsluhluta Flugmálastjórnar í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun júní. Voru það annars vegar lög um opinbera hlutafélagið Flugstoðir ohf. og hins vegar nýr kafli um Flugmálastjórn Íslands í lögum um loftferðir. Stofnun Flugstoða ohf. var fyrsti þátturinn í þeim undirbúningi. Verður næstu vikum og mánuðum varið til að fara nánar yfir hvaða starfsmenn og hvaða þættir starfseminnar falla muni undir Flugstoðir og hvað tilheyra muni Flugmálastjórn Íslands í samræmi við áðurgreind lög.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta